Ný ríkisstjórn þarf að bregðast hratt við orkuskorti
„Fyrir okkur sem þjóðfélag er þetta nýtt, að upplifa orkuskort, þar sem við höfum hingað til haft gnægð af rafmagni. Ný ríkisstjórn þarf að bregðast hratt við til að leysa málið,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Bloomberg sem birt er daginn fyrir kosningar 29. nóvember. Í fréttinni sem Ragnhildur Sigurðardóttir skrifar segir að almennar kosningar á Íslandi sem fari fram um helgina gætu rutt brautina fyrir aukningu í orkuframleiðslu þar sem skortur á rafmagni hafi hamlað viðleitni til að fjölga stoðum hagkerfa landa sem eru staðsett við Norður-Atlantshafið.
Í fréttinni segir að Ísland, sem kalli sig land elds og íss, sé eitt virkasta jarðfræðilega svæði heims þar sem Norður-Ameríku- og Evrasíuflekarnir mætist. Vatnsafl standi fyrir 70% af heildar-rafmagnsframleiðslu landsins sem nemi um 20 teravattstundum á ári og restin komi frá jarðvarma. Þá segir að væntanleg valdhafaskipti á Íslandi gætu leitt til fjölgunar vatnsafls- og jarðvarmaverkefna um allt land sem sé strjálbýlast í Evrópu. Fyrsta vindorkuver Íslands, sem Landsvirkjun reki, sé væntanlegt árið 2026 og fleiri vindgarðar séu í undirbúningi. Sólar- og sjávarfallorka séu einnig möguleikar sem unnið sé að.
Í frétt Bloomberg kemur fram að í húfi sé hvort stærsti græni orkuframleiðandi heims á hvern íbúa geti tekist á við endurteknar skerðingar á orku til stórnotenda, sem hafi valdið glötuðum útflutningstekjum. Aukin framleiðslugeta endurnýjanlegrar orku gæti einnig laðað að meiri erlenda fjárfestingu og aukið líkur á að ná loftslagsmarkmiðum.
Þá segir að þrátt fyrir að orkumál séu ekki í forgrunni kosningabaráttunnar sé ljóst að skýr stefna í þessum málaflokki verði kærkomin fyrir atvinnulífið, eftir ár þar sem pólitíska samstöðu hafi skort. Tafir í leyfisferlum hafi seinkað framkvæmdum Landsvirkjunar á vatnsaflsvirkjun í Suðurlandi og nálægu vindorkuveri, en þurrkatímabil sem hafi dregið úr vatnsforða hafi gert stöðuna erfiðari og valdið skerðingu á orku til viðskiptavina án forgangssamninga. Þrjú alþjóðleg álver, Rio Tinto, Century Aluminum og Alcoa, kaupi 76% af allri raforku sem framleidd sé á Íslandi. Þótt álverin hafi yfirleitt næga orku vegna forgangssamninga hafi aðrir notendur, svo sem fiskimjölsverksmiðjur og hitaveitur, neyðst til að brenna jarðefnaeldsneyti þegar rafmagn hafi verið af skornum skammti. Í frétt Bloomberg segir að Samtök iðnaðarins áætli að raforkuskorturinn hafi kostað 14–17 milljarða íslenskra króna eða 100–120 milljónir Bandaríkjadala í glötuðum útflutningstekjum.
Bloomberg, 29. nóvember 2024.