Fréttasafn



4. mar. 2021 Almennar fréttir

Ný skýrsla SI með 33 tillögum að umbótum

Samhliða Iðnþingi 2021 gefa Samtök iðnaðarins út nýja skýrslu þar sem lagðar eru fram 33 tillögur að umbótum sem ráðast þarf í á næstu 12 mánuðum. Með þessari skýrslu vilja samtökin leggja sitt af mörkum til umræðunnar í aðdraganda kosninga. 

Í skýrslunni segir að  miklu máli skipti að ákvarðanir nýrra stjórnvalda leiði til umbóta á Íslandi, bæði fyrir fólk og fyrirtæki og að á næstu 12 mánuðum verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega framtíð á Íslandi næstu ár og áratugi. Kólnun hagkerfisins var staðreynd fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Farsóttin reynist hinu opinbera mjög kostnaðarsöm og nemur aukning skulda hátt í milljarði króna á hverjum virkum degi. Eftir skynsama hagstjórn undanfarinna ára er ríkissjóður vel í stakk búinn að taka á sig auknar byrðar en að lokum kemur að skuldadögum. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – er farsælasta leiðin. Leið skattlagningar mun hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina. Með því að slíta fjötrana semmhalda aftur af atvinnulífinu með markvissum hætti á næstu mánuðum verður hægt að hraða uppbyggingu og skapa ný og eftirsótt störf og aukin verðmæti. Verðmætasköpun sem byggir á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. Samtök iðnaðarins, sem hreyfiafl í íslensku samfélagi, vilja vinna með stjórnvöldum að umbótum til hagsbóta fyrir iðnaðinn, atvinnulífið og almenning í landinu. Með umbótum í menntun, innviðum, nýsköpun, starfsumhverfi og orku- og umhverfismálum eykst framleiðni sem leiðir til hagsældar.

 

Mynd-af-Islandi

Í skýrslunni segir að verkefni hagstjórnar á næsta kjörtímabili eða til ársins 2025 sé að skapa nægan hagvöxt til að ná atvinnuleysinu niður á ásættanlegt stig og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar. Til þess að þetta verði að veruleika verði að ráðast í aðgerðir strax. Auka þarf gjaldeyristekjur, verðmætasköpun og fjölga störfum í einkageiranum. Efla verður samkeppnishæfni með áherslu á þá þætti sem helst eru til þess fallnir að örva verðmætasköpun fyrirtækja í landinu og leiða til fjölgunar starfa. Ef ná á atvinnuleysi niður í 3,5% árið 2025, þ.e. niður í viðlíka hlutfall og það var á árinu 2019, þarf að jafnaði 4,2% hagvöxt á ári á næsta kjörtímabili. Fjölga þarf störfum á tímabilinu um rétt ríflega 29 þúsund og landsframleiðsla þarf að aukast um 545 milljarða króna yfir tímabilið. Rétt er að leggja áherslu á að þessi verðmætasköpun og raunar fjölgun starfa þarf að eiga sér stað í einkageiranum og með aukningu gjaldeyristekna. Auka þarf gjaldeyristekjur um 300 milljarða króna yfir tímabilið eða sem nemur ríflega 1,4 ma.kr. á viku. Takist þetta munu efnahagsleg lífsgæði landsmanna aukast á tímabilinu og landsframleiðsla á mann verður meiri á árinu 2025 en hún var á árinu 2019, fyrir efnahagsáfallið sem fylgdi heimsfaraldrinum.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

Forsida_1614937170167