Fréttasafn28. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Ný skýrsla um innviði á Íslandi verður kynnt á fundi í Hörpu

Í tilefni af útgáfu skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi efna Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga til opins fundar í Kaldalóni í Hörpu á fimmtudaginn næstkomandi, 5. október, kl. 8.30–10.00. Hér er hægt að skrá sig á fundinn. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8.00.

Þetta er í fyrsta sinn sem heildstæð skýrsla um ástand innviða hér á landi er gefin út. Íslenskt samfélag er óhugsandi án þess að hér séu traustir innviðir líkt og flugvellir, vegir, hafnir, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, sorphirða og förgun, orkuöflun og orkuflutningar ásamt fasteignum ríkis og sveitarfélaga á borð við skóla og sjúkrahús. Saman mynda þessir innviðir lífæðar samfélagsins. Með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðarinnar. 

Dagskrá

  • Ávarp - Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI
  • Setning - Tryggvi Jónsson, fundarstjóri og formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga
  • Mikilvægi innviða og helstu niðurstöður - Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
  • Vegir og flugsamgöngur - Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá Mannviti
  • Fráveitur og sorpmál - Helga Jóhanna Bjarnadóttir, verkfræðingur og sviðstjóri hjá EFLU
  • Orkuöflun og orkuflutningar - Hörn Hrafnsdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Verkís og Eymundur Sigurðsson, verkfræðingur á orkusviði Lotu