Fréttasafn3. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Ný sókn atvinnulífsins og endurreisn efnahagskerfisins

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segja í grein í Morgunblaðinu að farsælasta leiðin sé leið vaxtar en ekki leið aukinna opinberra umsvifa og skattlagningar nú þegar ný sókn atvinnulífsins og endurreisn efnahagskerfisins sé fram undan. Þeir segja verkefni hagstjórnar á næsta kjörtímabili til ársins 2025 verði að skapa grundvöll fyrir nægan hagvöxt til að ná atvinnuleysinu niður og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar, auka þurfi gjaldeyristekjur, verðmætasköpun og fjölga störfum í einkageiranum. 

Tækifærin sótt í orkusæknum iðnaði og hugverkaiðnaði

Þeir segja nýtt álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fara saman við álit Samtaka iðnaðarins á þeim efnahagsvanda sem við okkur blasir. Nú þurfi að nýta tækifærið til að byggja undir fjölbreyttara og sterkara atvinnulíf í stað þess að leitast við að endurreisa hagkerfið eins og það var. Nú sé rétti tíminn til að byggja upp nýjar greinar og auka þannig fjölbreytni í íslensku efnahagslífi. Samtök iðnaðarins hvetji til þess að tækifærin verði sótt í orkusæknum iðnaði og hugverkaiðnaði með markaðssókn til að laða að erlenda fjárfestingu.

Hugverkaiðnaður gæti orðið stærsta útflutningsgrein Íslands

Í greininni segir að á grundvelli þess orkusækna iðnaðar sem þegar sé á Íslandi og hafi byggst upp á mörgum áratugum sé hægt að sækja fram. Fjölmörg tækifæri séu í útflutningi á orkuþekkingu og grænum lausnum. Þá segja þeir að hugverkaiðnaður hafi vaxið undanfarin ár og sé nú orðinn raunveruleg stoð í gjaldeyrisöflun hagkerfisins. Ólíkt öðrum stoðum útflutnings þá byggi hugverkaiðnaður ekki á nýtingu auðlinda heldur á því að virkja hugvitið til sköpunar verðmæta og starfa. Með hliðsjón af því liggi helstu vaxtarmöguleikarnir í atvinnulífi og í útflutningi á sviði hugverkaiðnaðar. Ef rétt er á málum haldið og réttar ákvarðanir verða teknar þá verði hugverkaiðnaður stærsta útflutningsgrein Íslands í framtíðinni. Þeir segja að stærsta efnahagsmálið sé að tryggja að svo geti orðið. 

Þeir segja í greininni að það ætti að vera keppikefli þeirra sem halda munu um stjórnartaumana að þingkosningum loknum að atvinnulífinu verði gert enn betur kleift að sækja tækifærin og skapa aukin verðmæti þannig að ný og eftirsótt störf verði til. Hindranir sem hefti vöxt atvinnulífsins munu einungis tefja endurreisnina.

Tillögur SI til þess fallnar að örva verðmætasköpun fyrirtækja í landinu

Grein Árna og Sigurðar er sú síðasta í greinaröð þar sem samtökin hafa teflt fram þeim fimm málefnum sem helst hafa áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni hér á landi; menntun, innviðir, nýsköpun, starfsumhverfi og orku- og umhverfismál. Í greininni segir að í hverju þessara málefna hafi samtökin lagt fram tillögur að umbótum sem ætlað sé að efla samkeppnishæfni Íslands. Tillögurnar séu 33 talsins og til þess fallnar að örva verðmætasköpun fyrirtækja í landinu sem leiði til þess að ný eftirsótt störf verði til sem og aukin verðmæti. Í niðurlagi greinarinnar segja þeir að með þeim umbótum sem Samtök iðnaðarins leggja til að ráðist verði í eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið og það sé rík ástæða til að hvetja þá sem nú sækja fram á vettvangi stjórnmálanna að horfa til þessara umbótatillagna.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 3. maí 2021.

Morgunbladid-03-05-2021_1620045546133