Fréttasafn



5. maí 2023 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

Ný stjórn FRV kosin á aðalfundi félagsins

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, sem fór fram í gær í Húsi atvinnulífsins.Í nýrri stjórn eru Reynir Sævarsson, formaður, Efla, Ásta Logadóttir, Lota, Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir, Verkís, Haukur J. Eiríksson, Hnit, og Hjörtur Sigurðsson, VSB verkfræðistofa. Varamenn eru Gunnar Sverrir Gunnarsson, Mannvit, og Runólfur Þór Ástþórsson, VSÓ Ráðgjöf.

Áður en hefðbundin fundarstörf hófust ræddu fundarmenn um framtíðarfyrirkomulag kjarasamningsviðræðna FRV. Guðjón Jónsson, stjórnarmaður, stýrði umræðum og kynnti afstöðu stjórnar til málsins. Í máli sínu fór Guðjón m.a. yfir stöðuna í dag, þ.e. breytt kjarasamningsumhverfi og þróun launa verkfræðinga, auk þess sem hann fór yfir tilgang Félags ráðgjafarverkfræðinga áður og nú sem hefur tekið miklu breytingum eftir inngöngu félagsins inn í SI og SA en stjórn og flestir félagsmenn líti í dag á FRV sem hagsmuna- og fagfélag sem hafi unnið gríðarlega mikla vinnu í umbótarstarfi fyrir starfsumhverfi félagsmanna sinna. Með breyttan tilgang í huga og í breyttu kjarasamningsumhverfi væri það afstaða stjórnar að fara ætti þá leið að leggja kjarasamningsumboð félagsins í hendur SA gagnvart Verkfræðingafélagi Íslands. Eftir kynningu Guðjóns fór Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, yfir launaþróun kjarasamninga bæði FRV og SA til samanburðar við launavísitölur og þróun þeirra. Góðar umræður sköpuðust og var niðurstaða fundarins á þá leið að stjórn myndi undirbúa framhaldsaðalfund á komandi haustmánuðum til endanlegrar ákvarðatöku um mögulegt framsal kjarasamningsumboðs FRV til SA og undirbúa sömuleiðis nauðsynlegar lagabreytingar.

Að lokinni umræðu um framtíðarfyrirkomulag kjarasamningsviðræðna FRV tók Bjartmar Steinn Guðjónsson við fundarstjórn og sinnti Kristján Daníel Sigurbergsson fundarritun, báðir viðskiptastjórar á mannvirkjasviði SI. Reynir Sævarsson fór yfir skýrslu stjórnar FRV vegna síðasta starfsárs þar sem farið var yfir helstu áherslumál og verkefni félagsins auk þess sem Bjarni Grétar Jónsson, stjórnarmaður Yngri ráðgjafa, fór yfir skýrslu stjórnar YR. Fundarstjóri fór því næst yfir efni ársreiknings félagsins fyrir árið 2022 auk áætlunar um tekjur og gjöld félagsins á árinu 2023.

Fyrir fundinn höfðu Guðjón Jónsson og Ólöf Helgadóttir lýst því yfir að þau myndu ekki taka að sér frekari stjórnarstörf og var þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf á liðnum árum í þágu félagsins. Kosið var til formanns til tveggja ára auk þriggja stjórnarmanna og tveggja varamanna. Reynir Sævarsson bauð sig fram til formanns félagsins til tveggja ára, Hjörtur Sigurðsson til meðstjórnanda til tveggja ára og Ásta Logadóttir og Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir báðar til meðstjórnanda til eins árs. Þá buðu Gunnar Sverrir Gunnarsson og Runólfur Þór Ástþórsson sig fram til varamanna stjórnar til eins árs. Engin frekari framboð bárust fyrir fundinn og voru þau þ.a.l. öll sjálfkjörin til stjórnarstarfa sinna í samræmi við framboð. Fyrir í stjórn félagsins, kosin á aðalfundi 2022 til tveggja ára, er Haukur J. Eiríksson sem meðstjórnandi.

IMG_1020Reynir Sævarsson, formaður FRv.

IMG_1014Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA.

IMG_1016Guðjón Jónsson, stjórnarmaður FRV.

IMG_1026Bjarni Grétar Jónsson, stjórnarmaður Yngri ráðgjafa.