Fréttasafn14. maí 2024 Almennar fréttir Mannvirki Meistarafélag byggingarmanna á Norðurlandi

Ný stjórn Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi

Ný stjórn var kosin á vel sóttum aðalfundi Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi, MBN, sem haldinn var fyrir skömmu. Í stjórn MBN eru Ármann Ketilsson, formaður, Björn Friðþjófsson, varaformaður, Klemenz Jónsson, ritari, Þórólfur Aðalsteinsson, gjaldkeri, Heiðar Konráðsson, meðstjórnandi, Jónas Magnús Ragnarsson, meðstjórnandi og Örn Þórðarson, meðstjórnandi. Í varastjórn sitja Sigmar Stefánsson, Heiðar Heiðarsson og Friðjón Halldórsson.

Ein breyting varð á aðalstjórn félagsins, Örn Þórðarson var kosinn í aðalstjórn í stað Haraldar Pálssonar sem sagði sig úr stjórn. Þá varð breyting á varastjórn, Friðjón Halldórsson var kosinn í varastjórn í stað Brynjars Harðarsonar.

Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar þar sem eftirfarandi kom meðal annars fram:

  • Stjórnin ákvað að bjóða uppá viðburð á síðasta ári, en aðalfundarsamþykkt er fyrir því að annað hvert ár verði boðið uppá „uppákomu“ fyrir félagsmenn. Nú var ákveðið að bjóða félagsmönnum og mökum þeirra til kvöldverðar á KEA og á sýninguna „Njála á hundavaði“ á eftir. Mjög góð þátttaka varð og þakkaði formaður fyrir það.
  • Í nóvember stóð MBN að kynningarfundi með skipulagsstjóra Akureyrar, Pétri Inga Haraldssyni, um drög að skipulagi á „tjaldstæðareit“ sem var mjög vel sóttur.
  • Umræða var innan stjórnar MBN um hvort ástæða sé til að óska eftir fundum með sveitafélögum á Norðurlandi og ræða bygginga- og skipulagsmál. Það mál er enn í skoðun hjá stjórn.
  • Óskað var eftir upplýsingum frá Menntamálastofnun um fjölda útskrifaðra sveina í mannvirkjagreinum á Norðurlandi. Þessum upplýsingum kölluðu Samtök iðnaðarins eftir og kom þeim á alla félagsmenn MBN í tölvupósti.
  • Stjórn MBN ákvað að senda allar fundagerðir á félagsmenn þeim til upplýsinga.
  • Stjórninni var falið að tilnefna í sérstaka „kjaranefnd SI/SA“. Leitað var til Ólafs Ragnarssonar hjá Húsheild/Hyrna sem samþykkti að sinna þessu verkefni.
  • Stjórn félagsins heyrði af óánægju félagsmanna varðandi tilkynningar um seinkun á afhendingu lóða í Móa-hverfi. Stjórnin brást hratt við og sendi harðorða ályktun til bæjaryfirvalda. Í kjölfarið var haldinn fundur með Pétri Inga, Tómasi og Guðríði Friðriksdóttur og farið rækilega yfir málið. 
  • Stjórn fannst mikilvægt að setja sér sérstök áherslumál sem unnið yrði að á komandi mánuðum. Þau þrjú mál sem ákveðið var að vinna sérstaklega að eru að minnka flækjustig í samskiptum við skipulags- og byggingarsvið sveitafélaga, jafnvel fækka og sameina embætti, að vinna að því að hækka að nýju endurgreiðslu á virðisaukaskatti en í dag er endurgreiðslan aðeins 35% og að vinna gegn hækkunum á lóðagjöldum og ýmsum öðrum/nýjum gjaldaliðum sveitarfélaga.

Á fundinum var Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, SSNE, þakkað fyrir að leyfa MBN að halda stjórnarfundi sína í húsnæði SSNE og var Elvu þakkað sérstaklega þar sem hún er ávallt boðin og búin að aðstoða félagið. 

Að aðalfundarstörfum loknum flutti gestafyrirlesari, Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúa Akureyrar, erindi. Að erindi hans loknu fór fram spjall við Pétur Inga sem stóð yfir í tvær klukkustundir. Stjórn MBN þakkaði Pétri Inga og félagsmönnum fyrir að gefa sér tíma í spjallið enda væri samtal lykill að árangri.

20240404_170547Björn Friðþjófsson, Tréverk Dalvík, var fundastjóri aðalfundar MBN.

20240404_170921Ármann Ketilsson, formaður MBN.