Fréttasafn



1. jún. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Ný stjórn SAMARK kosin á aðalfundi

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Samtaka arkitektastofa, SAMARK, sem fór fram í Húsi atvinnulífsins gær. Kosið var til þriggja sæta í stjórn félagsins og var Halldór Eiríksson hjá T.ark kosinn formaður samtakanna til næstu tveggja ára en Halldór sat áður í stjórn frá aukaaðalfundi 2021 sem haldinn var í desember það ár. Þorvarður Lárus Björgvinsson, Arkís, tók þá við stjórnarsæti sínu í samræmi við bókun aukaaðalfundar 2021 og kosningu aðalfundar 2021 þar sem hann var kosinn til stjórnarsetu til tveggja ára. Tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir til stjórnar samtakanna og eru það þær Þórhildur Þórhallsdóttir, Landmótun, sem kosin var til tveggja ára auk Ástríðar Birnu Árnadóttur, ARKIBYGG, sem kosin var til eins árs. Fyrir situr einnig í stjórn samtakanna Freyr Frostason, THG arkitektum. Fráfarandi stjórnarmenn SAMARK eru Aðalheiður Atladóttir, A2f, og Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Landmótun, og voru þeim færðar bestu þakkir fyrir störf sín í þágu Samtaka arkitektastofa.

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Ástríður Birna Árnadóttir, Þorvarður Lárus Björgvinsson, Aðalheiður Atladóttir, Halldór Eiríksson, Freyr Frostason og Aðalheiður E. Kristjánsdóttir.

Erindi um kjarasamningsviðræður sem hefjast síðar á árinu

Í upphafi aðalfundarins flutti Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, erindi um komandi kjarasamningsviðræður sem hefjast síðar á þessu ári og hvaða áhrif þær kynnu að hafa á starfsumhverfi arkitektastofa landsins. Ragnar rakti meðal annars tilurð og tilgang SALEK samkomulagsins frá 2013. Í kjölfar kynningar Ragnars urðu umræður um samkeppnishæfni arkitektastofa á markaði við launa- og starfskjör hins opinbera og voru fundarmenn sammála um að erfitt eða ómögulegt væri að bjóða þau kjör sem boðin væru á opinbera markaðnum í dag. 

Bjartmar Steinn Guðjónsson tók því næst við fundarstjórn og var Friðrik Ágúst Ólafsson kosinn fundarritari fundarins, báðir eru þeir viðskiptastjórar á mannvirkjasviði SI. Þorvarður Lárus Björgvinsson, formaður SAMARK, fór yfir skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs þar sem farið var yfir helstu áherslumál og verkefni samtakanna. Fundarstjóri fór því næst yfir efni ársreiknings samtakanna fyrir árið 2021 auk áætlunar um tekjur og gjöld þeirra á árinu 2022.

IMG_8038Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA.

IMG_8037

IMG_8039