Fréttasafn



8. apr. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök innviðaverktaka

Ný stjórn Samtaka innviðaverktaka

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Samtaka innviðaverktaka sem var haldinn í Húsi atvinnulífsins 4. apríl. Nýja stjórn skipa Sólveig Margrét Kristjánsdóttir, formaður, Pétur Kristjánsson, varaformaður, Atli Þór Jóhannsson, Árni Geir Eyþórsson, Guðmundur Sveinsson og Matthías Matthíasson. Þrír fóru úr stjórn félagsins, þ.e. Vilhjálmur Þór Matthíasson, formaður, Gísli Elí Guðnason, varaformaður og Ívan Örn Hilmarsson, meðstjórnandi. Voru þeim færðar bestu þakkir fyrir störf þeirra í þágu félagsins.

Áður en hefðbundin aðalfundarstörf hófust kynnti Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, helstu niðurstöður nýrrar skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. Hann einblíndi sérstaklega á vegasamgöngur og ástand vegakerfisins en uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu er áætluð 265-290 milljarðar króna. Þá fjallaði hann m.a. um fjárlagafrumvarpið og fyrirhuguð framlög til samgöngumála o.fl.

Fráfarandi formaður félagsins, Vilhjálmur Þór Matthíasson, kynnti skýrslu stjórnar en á starfsárinu var lögð áhersla á að stuðla að auknu fjármagni til viðhalds og uppbyggingar innviða, sér í lagi vegasamgangna, tryggja stöðugt starfsumhverfi aðildarfyrirtækja og auka fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum.

Innviðanefnd félagsins var lögð niður á fundinum í ljósi þess að innan SI væri unnið ríkulega að þeim málefnum og ekki hefði reynst þörf á framlagi nefndarinnar sl. starfsár. Kosið var í nýja orkuskiptanefnd sem nú skipa Atli Þór Jóhannsson, Guðmundur Sveinsson og Matthías Matthíasson.

Ný stjórn, talið frá vinstri, Guðmundur Sveinsson, Pétur Kristjánsson, varaformaður, Matthías Matthíasson, Atli Þór Jóhannsson, og Sólveig Margrét Kristjánsdóttir, formaður. Á myndina vantar Árna Geir Eyþórsson. 

IMG_3985Fráfarandi stjórnarmönnum voru færðar þakkir, Gísli Elí Guðnason, fráfarandi varaformaður, Vilhjálmur Þór Matthíasson, fráfarandi formaður, Ívan Örn Hilmarsson, fráfarandi meðstjórnandi, Pétur Kristjánsson, varaformaður, og Sólveig Margrét Kristjánsdóttir, formaður.

IMG_3972Fráfarandi formaður Vilhjálmur Þór Matthíasson fór yfir skýrslu stjórnar. 

IMG_3956Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

IMG_3958