Ný stjórn Samtaka sprotafyrirtækja
Ný stjórn Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, var kosin á aðalfundi sem fór fram í Húsi atvinnulífsins fimmtudaginn 4. apríl. Alexander Jóhönnuson, framkvæmdarstjóri Ignas ehf., var kjörinn formaður samtakanna en hann hefur setið í stjórn SSP frá árinu 2021. Alexander tók við formennsku af Fidu Abu Libdeh, framkvæmdarstjóra GeoSilica, sem hefur verið formaður síðustu þrjú starfsár og setið í stjórn SSP frá árinu 2017. Ellen María Bergsveinsdóttir, framkvæmdastjóri Mink Campers, og Róbert Helgason, framkvæmdastjóri KOT, sátu áfram í stjórn en ný komu inn Ólöf Rún Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Eylíf, og Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefrine Marine.
Á fundinum var farið yfir starfsár samtakanna og áherslumál sem skiptust í fjármagn, umhverfi og ímynd. Samtök sprotafyrirtækja eru öflugustu hagsmunasamtök sprotafyrirtækja á Íslandi en í samtökunum eru yfir 50 fyrirtæki í ólíkri atvinnustarfsemi. Fyrirtækin eru á ólíkum vaxtarstigum en eiga það öll sameiginlegt að vera með veltu undir milljarði íslenskra króna og verja stórum hluta veltu sinnar í rannsóknir og þróun.
Í kjölfar aðalfundardagskrár hélt Hafþór Ægir Sigurjónsson, eigandi og sérfræðingur í sjálfbærnismálum hjá KPMG, fyrirlestur um sprota og sjálfbærni við góðar undirtektir. Að erindi hans loknu var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku Hafþórs Ægis, Ásthildar Otharsdóttur sem er einn eigenda og fjárfestingastjóri Frumtak Ventures og Guðmundar Sigbergssonar sem er framkvæmdastjóri International Carbon Registry. Alexander Jóhönnuson stýrði umræðunum.
Róbert Helgason, Ellen María Bergsveinsdóttir, Alexander Jóhönnuson, Ólöf Rún Tryggvadóttir og Karl Birgir Björnsson.
Hafþór Ægir Sigurjónsson.
Guðmundur Sigbergsson, Hafþór Ægir Sigurjónsson, Ásthildur Otharsdóttir og Alexander Jóhönnuson.
Fráfarandi formaður SSP, Fida Abu Libdeh. Á fundinum var henni þakkað fyrir framlag til sprotasamfélagsins síðustu sjö ár.