Fréttasafn



10. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Ný stjórn Vetnis- og rafeldsneytissamtakanna

Aðalfundur Vetnis- og rafeldsneytissamtakanna, VOR, var haldinn í Húsi atvinnulífsins fyrir skömmu. Á fundinum voru kjörin í stjórn Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri CRI hf., og Sigurður Ólafsson, viðskiptaþróunarstjóri hjá Linde Gas ehf. Fyrir í stjórn eru Auður Nanna Baldvinsdóttir, IðunnHi2 ehf., formaður VOR, Tryggvi Þór Herbertsson, Qair Ísland ehf. og Magnús Bjarnason, CI ETF I Fjardarorku HoldCo ehf.

Á fundinum var ársskýrsla VOR flutt þar sem fjallað var um verkefni stjórnar á liðnu starfsári. Þá ræddu félagsmenn hverjar áherslur stjórnar á komandi starfsári ættu að vera og mikilvægi þess að kynna betur hlutverk vetnis og rafeldsneytis í orkuskiptum. 

Að lokinni aðalfundardagskrá var opinn fundur þar sem Barbara Zuderwijk, framkvæmdastjóri og stofnandi Green Giraffe Group, flutti erindi um vetnismarkaðinn með sérstakri áherslu á Evrópu, tækifæri vetnisframleiðslu og einstaka stöðu Íslands til að vera meðal þeirra fyrstu til að ná árangri í orkuskiptunum. Þá kynntu nokkur aðildarfélög VOR verkefni sín stuttlega. Góðar umræður sköpuðust og augljóst að mikill áhugi er um málefnið.

Image-2-Barbara Zuderwijk, framkvæmdastjóri og stofnandi Green Giraffe Group, flutti erindi að loknum aðalfundarstörfum VOR.