Fréttasafn



7. sep. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Ný verksmiðja ÍSAGA verður í Vogum á Vatnsleysuströnd

ÍSAGA ehf. mun hefja framkvæmdir um miðjan september við nýja súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á iðnaðarsvæði við Vogabraut í Vogum á Vatnsleysuströnd. Áætlaður kostnaður við verksmiðjuna er 2,5 milljarðar króna og mun hún styðja við íslenskan iðnað og framleiðslu sem er ört vaxandi ásamt því að sjá heilbrigðiskerfinu fyrir hágæða súrefni á öruggan hátt. Skóflustunga að verksmiðjunni verður tekin föstudaginn 9. september kl. 14.00.

Verksmiðjan mun framleiða súrefni og köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Uppsetning verksmiðjunnar mun fara þannig fram að skilja og tankar koma samsettir á byggingarsvæðið og önnur mannvirki eru úr forunnum einingum. Lóðin verður girt af með mannheldri girðingu, aðgangsstýrðum hliðum og öryggiskerfum til að tryggja öryggi. 

Gert er ráð fyrir að verksmiðjunni verði fjarstýrt af starfsmönnum ÍSAGA/Linde á sama hátt og gert er í dag í verksmiðjum ÍSAGA að Breiðhöfða og Hæðarenda. Starfsmenn ÍSAGA eru allan sólarhringinn á bakvakt og sjá um eftirlit og viðhald á búnaði. Enginn mengandi úrgangur eða aukaafurðir fylgja framleiðslunni og verður lyktarlaus vatnsgufa eini útblásturinn frá verksmiðjunni. Starfsemin fellur vel að stefnu í aðalskipulagi um iðnaðarsvæði við Vogabraut í Vogum. Á svæðinu er gildandi deiliskipulag, „Iðnaðarsvæði við Vogabraut“.

ÍSAGA ehf. var stofnað árið 1919 og er í eigu Linde Group sem er stærsta gasfyrirtæki heims með starfsemi í yfir 100 löndum. ÍSAGA hefur aðsetur að Breiðhöfða í Reykjavík í dag. Þar eru súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðja fyrirtækisins, áfyllingarstöð, skrifstofa, verslun og fleira. Hjá ÍSAGA starfa um 28 manns og er fyrirtækið með 7 afgreiðslustaðir víðsvegar um landið.

Núverandi verksmiðja ÍSAGA í Reykjavík vinnur 800 m3/klst. af súrefni og köfnunarefni en ný verksmiðja mun afkasta um 30% meira. Að Hæðarenda í Grímsnesi er ÍSAGA með rekstur á koldíoxíðframleiðslu (CO2)sem er  unnið úr jarðhitavatni. Aðrar lofttegundir sem ÍSAGA selur eru innfluttar eins og t.d. glaðloft, argon, helíum, acetylen og própan.