Fréttasafn



20. okt. 2015 Menntun

Nýir starfsnemar til Samtaka iðnaðarins

 Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til að efla menntun fyrir atvinnulífið og sem liður í menntastefnu samtakanna eru reglulega ráðnir inn starfsnemar sem sinna þar fjölbreyttum störfum. Samtök iðnaðarins hafa fengið til sín í starfsþjálfun fjóra nýja meistaranema, þau Magnús Kára Ingvarsson, Ingu Valgerði Stefánsdóttur, Höllu Kristínu Guðfinnsdóttur og Viktoríu Ólafsdóttur.

Magnús Kári er meistaranemi í viðskiptafræði við HÍ og var ráðinn til Samtaka iðnaðarins sem greinandi þar sem hann mun vinna með hagtölur og tölfræði  og úrvinnslu á þeim. Magnús er einnig með mastersgráðu í vélaverkfræði frá HÍ og útskrifaðist þaðan árið 2014.

Inga Valgerður Stefánsdóttir er meistaranemi í lögfræði við HÍ og var ráðinn til Samtaka iðnaðarins sem laganemi þar sem hún mun sinna lögfræðilegum málefnum. Inga Valgerður útskrifaðist með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ árið 2013 og BA gráðu í lögfræði árið 2014.

Halla Kristín er meistaranemi í heilbrigðisverkfræði við HR og var ráðinn til Samtaka iðnaðarins sem verkefnastjóri GERT verkefnisins. GERT er heiti aðgerðaráætlunar Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni. Halla útskrifaðist með BSc gráðu í heilbrigðisverkfræði frá HR árið 2013.

Viktoría Ólafsdóttir er meistaranemi í alþjóðlegum viðskiptum við Háskólann á Bifröst og var ráðinn inn til samtakanna sem almannatengill þar sem hún mun vinna að markaðssetningu og miðlun upplýsinga. Viktoría útskrifaðist með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2011 og AP gráðu í margmiðlunarhönnun og samskiptum frá Erhversakademiet Lillebælt 2014.

Um leið og við bjóðum nýja starfsnemana okkar velkomna til starfa hjá Samtökum iðnaðarins þá viljum við þakka fráfarandi starfsnemum, þeim Hlyni Magnússyni og Lofti Hreinssyni, fyrir vel unnin störf.