Fréttasafn



24. ágú. 2016 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýjar tæknilausnir fyrir eldri borgara og fatlaða

Samtök iðnaðarins og Reykjavíkurborg stóðu fyrir stefnumóti frumkvöðla, fyrirtækja og aðila á velferðarsviði til að leggja grunn að þróun og prófun nýrra tæknilausna fyrir eldri borgara og fatlaða m.a. til sjálfstæðara lífs þriðjudaginn 23. ágúst í félagsmiðstöðinni Borgir við Spöngina í Grafarvogi.

Þátttakendur voru starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sérfræðingar öldrunarsviðs LSH og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, frumkvöðlar og fyrirtæki á sviði tæknilausna. Stefnumótið fól í sér tækifæri til verðmætasköpunar og útflutnings fyrirtækja sem þróa og vinna með lausnir á þessu sviði. Tilgangurinn er að skapa samstarfsvettvang en dagskráin hófst með stuttum 3 mínútna örkynningum á þróunarverkefnum og lausnum frá frumkvöðlum og fyrirtækjum. Þungamiðja stefnumótsins var síðan í fundum þar sem grundvöllur fyrir samstarfi var ræddur milli tveggja eða fleiri þátttakenda. 

Stefnumótið er hluti af norræna verkefninu Nordic Business and Living Lab Alliance sem borgirnar Osló, Helsinki, Kaupmannahöfn, Reykjavík og Västerås taka þátt í.

Meðal tæknilausna sem kynntar voru á stefnumótinu tengjast meðal annars styrktarþjálfun eldri borgara til að koma í veg fyrir byltur, þekkingarmiðstöð velferðartækni og öldrunarfræða, smáforrit með handhægum upplýsingum um aðgengi að mannvirkjum og þjónustu, netsíða sem tengir fyrirtæki og fólk sem er hætt föstu starfi á vinnumarkaði en er í fullu fjöri, bætt aðgengi að sérfræðiþjónustu fyrir aldraða, öryrkja og fatlaða með fjarbúnaði.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti ávarp þar sem hann fór yfir stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara og fatlaðs fólks. Þórhildur Egilsdóttir, deildarstjóri Heimaþjónustu Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, flutti erindi um þarfir og tækifæri til að skapa nýjar lausnir með samstarfi fyrirtækja. Jóhann R. Benediktsson, Curron, sagði frá  dæmi um árangursríkt þróunarsamstarf um þróun á rafrænu heimaþjónustukerfi. Sigurður Björnsson, Rannís, ræddi um fjármögnun og matsaðferðir þróunarverkefna. Fundarstjóri var Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá SI.