Fréttasafn29. nóv. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýr 2,5 milljarða frumkvöðlasjóður stofnaður

Á fjölmennu Tækni- og hugverkaþingi SI kynnti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, aðgerðir í þágu nýsköpunarumhverfisins sem koma í kjölfar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem kynnt var í haust. Þar á meðal sagði ráðherrann frá stofnun Kríu sem er nýr frumkvöðlasjóður eða hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum (Venture Capital) og mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar. Í fjármálaáætlun ríkissjóðs er gert ráð fyrir samtals 2,5 milljörðum á næstu þremur árum til að fjármagna sjóðinn. Sjóðsstjórar vísisjóða á Íslandi geta, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fengið fjárfestingu frá Kríu. Það mun auka aðgengi sjóðsstjóra að fjármagni, auka fjármagn í umferð, auka líkur á að nýir sjóðir verði að veruleika, auka samfellu í fjármögnunarumhverfi og styðja við uppbyggingu reynslu og þekkingar í nýsköpunar- og sprotafjárfestingum.

Annað sem kom fram í kynningu ráðherra var áhersla sem á að leggja á nýsköpun hjá hinu opinbera en ráðherra hefur ákveðið að í fjárveitingum til þeirra stofnana sem heyra undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði gerð krafa um að hluta þeirra verði varið í aðkeyptar nýsköpunarlausnir. Þá hefur ráðherra farið þess á leit við Orkustofnun að stofnunin opni gögn sín og verði leiðandi í því að auka notkun á gögnum hins opinbera í þágu nýsköpunar. Einnig sagði ráðherra frá að stefnt sé að því að leggja fram frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum í 35% en á Íslandi sækja vísisjóðir fjárfestingu sína aðallega til lífeyrissjóða. Í máli ráðherra kom einnig fram að sett hefur verið á laggirnar ný hugveita sem skipuð verður tíu frumkvöðlum, nýsköpunarráðherra og fjármálaráðherra. Verkefni hugveitunnar verða að leggja reglulega til ábendingar, tillögur eða vandamál sem þarfnast úrlausna á málefnasviðinu og að veita endurgjöf á áætlanir og verkefni ráðuneytanna sem snerta málaflokkinn, bæði ný verkefni, og núverandi umhverfi. „Þetta eru fyrstu aðgerðirnar í takt við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Þetta eru stór skref sem við stígum í dag en verkinu er hvergi nærri lokið og því á aldrei að ljúka. Við þurfum stöðugt að huga að því að skapa hér umhverfi þar sem frumkvöðlar finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Næstu aðgerðir verða kynntar í febrúar 2020.“

Hér er hægt að nálgast upplýsingaskjal um aðgerðirnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.