Nýr 500 milljóna króna Matvælasjóður
Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu verður settur á fót Matvælasjóður og verður 500 milljónum króna varið til stofnunar hans á þessu ári og á að úthluta því fjármagni á þessu ári. Stofnun sjóðsins er hluti af öðrum áfanga aðgerða til að bregðast við áhrifum COVID-19. Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að unnið hafi verið að stofnun sjóðsins undanfarið ár í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en ákveðið að flýta vinnu við að setja sjóðinn á fót sem hluta af aðgerðum til að skapa efnahagslega viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir.
Matvælasjóður mun hafa það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Sjóðurinn mun styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla og verður við úthlutun sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.