Fréttasafn30. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Starfsumhverfi

Nýr fjarskiptasæstrengur opnar á fjölmörg tækifæri

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, og Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segja í grein sinni á Vísi að nýr fjarskiptasæstrengur á milli Íslands og Írlands, marki tímamót fyrir upplýsingatækni- og gagnaversiðnað hér á landi og opni á fjölmörg tækifæri til aukinna fjárfestinga og útflutnings á þjónustu til Evrópu. 

Í greininni sem ber yfirskriftina Ný framtíð með betra sambandi kemur fram að öflugur gagnaversiðnaður hafi byggst upp hér á landi á síðastliðnum áratug. Það sem komið hafi í veg fyrir að hann væri enn fjölbreyttari og sterkari sé ótryggt öryggi gagnatenginga við útlönd. Ýmiss konar þjónusta sem gagnaver sinni sé háð öruggum og hröðum gagnatengingum. Þá segir að starfsemi gagnavera á Íslandi hafi falið í sér bætta nýtingu í raforkukerfinu á sama tíma og iðnaðurinn hafi leitt af sér miklar fjárfestingar sem nemi tugum milljörðum króna, skapað hátæknistörf og afleidd jákvæð áhrif á upplýsingatækniiðnað hér á landi. 

Sigríður og Haraldur segja í grein sinni að gagnaversiðnaður sé í stöðugri sókn á heimsvísu enda verði gögn og upplýsingatækni sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi. Gagnamagn aukist á degi hverjum og tilheyrandi gagnavinnsla sömuleiðis. Þau segja að aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hafi stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist sé við að hann haldi áfram í veldisvexti.

Í niðurlagi greinar sinna segja þau Sigríður og Haraldur að með nýjum streng sé fjarskiptaöryggi landsins tryggt en öflugir stafrænir innviðir séu forsenda aukinnar nýsköpunar, útflutnings og fjárfestinga til framtíðar í stafrænum heimi.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Vísir, 25. maí 2022.

Umræða í Morgunútvarpi Rásar 2

Sigríður og Haraldur ræddu um fjarskiptasæstrenginn sem nefnist Íris í Morgunútvarpi Rásar 2.

Hér er hægt að nálgast umræðurnar.

Morgunútvarp Rásar 2, 25. maí 2022.