Nýr formaður Málms
Guðlaugur Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Frostmarks, var kosinn nýr formaður Málms, samtaka fyrirtækja í málmiðnaði á aðalfundi félagsins sem fram fór föstudaginn 27. maí síðastliðinn.
Fráfarandi formaður Málms, Brynjar Haraldsson hjá Frostverki, hefur starfað í stjórn félagsins síðustu 25 ár og starfað sem formaður undanfarin 11 ár. Að loknum aðalfundi afhentu Guðlaugur Þór Pálsson og Bjarni Thoroddsen Brynjari heiðursmerki Málms fyrir ötult starf innan félagsins og fyrir málmiðnaðinn hér á landi undanfarin 25 ár. Í kjölfarið fór fram vorfagnaður Málms þar sem mönnum gafst færi á að kveðja fráfarandi formann og ræða stöðu iðnaðarins í heild.
Umfangsmiklar lagabreytingar voru einnig samþykktar á aðalfundinum sem stjórn félagsins hefur unnið að undanfarið ár. Felst breytingin m.a. í því að félagið mun í framtíðinni starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins og er markmiðið með því að sameina loks öll fyrirtæki í málmiðnaði innan samtakanna undir einn öflugan hatt. Sérstök félagsgjöld til Málms voru með lagabreytingunum því felld niður og verða ekki innheimt framar.
Einnig var nafni félagsins breytt þannig að það sem áður var Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði heitir nú Málmur, samtök fyrirtækja í málmiðnaði.
Ný stjórn Málms starfsárið 2016-2017:
Guðlaugur Þór Pálsson, formaður, Frostmark
Þórður Theodórsson, Marel
Auður Hallgrímsdóttir, JSÓ
Jón Þór Þorgrímsson, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar
Guðmundur Heiðarsson, Mannberg
Stefán Sigurðsson, Skipasmíðastöð Njarðvíkur
Reynir B. Eiríksson, Ferro Zink
Bjarni Thoroddsen, Stálsmiðjan-Framtak
Ólafur R. Guðjónsson, Vélsmiðja Ólafs R. Guðjónssonar