Fréttasafn



15. ágú. 2017 Almennar fréttir Menntun

Nýr forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík

Dr. Gísli Hjálmtýsson hefur verið ráðinn forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hann tekur við stöðunni af dr. Yngvari Björnssyni sem hefur verið forseti deildarinnar frá 2014. Í fréttatilkynningu frá HR kemur fram að Gísli hafi yfir þrjátíu ára reynslu sem frumkvöðull og stjórnandi á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar og hafi þekkingu á fjölbreyttum sviðum íslensks og alþjóðlegs viðskiptalífs. Hann hafi verið framkvæmdastjóri og meðal eigenda Thule Investments frá árinu 2004 og leitt fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Hann hefur einnig setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, á Íslandi, í Evrópu og USA, allt frá nýsköpunarfyrirtækjum til skráðra félaga.

Gísli lauk doktorsprófi í tölvunarfræði frá University of California, Santa Barbara 1995 og BS gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá University of Rochester 1992. Eftir doktorspróf starfaði Gísli hjá AT&T Bell Laboratories. Frá árinu 2001-2007 var hann prófessor í tölvunarfræði og forseti tölvunarfræðideildar HR. Hann hefur birt yfir áttatíu vísindagreinar og haldið erindi á fjölmörgum ráðstefnum, hjá háskólum og fyrirtækjum. Gísli  á yfir 20 einkaleyfi og er meðlimur í IEEE og ACM.