Fréttasafn21. mar. 2016 Almennar fréttir

Nýr forstöðumaður almannatengsla Samtaka iðnaðarins

 Margrét Kristín Sigurðardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður almannatengsla Samtaka iðnaðarins og hóf hún störf 1. mars síðastliðinn. Margrét er viðskiptafræðingur cand.oecon með MBA stjórnunargráðu frá Háskólanum í Reykjavík og Msc gráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Margrét hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlun en hún hefur að undanförnu verið viðskiptablaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins og sá þar um frétta- og greinaskrif og viðtöl í vikulega útgáfu ViðskiptaMoggans og daglegar viðskiptasíður auk pistlaskrifa. Áður starfaði hún um langt árabil hjá Árvakri,  útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is, og gegndi meðal annars stöðu forstöðumanns sölu- og markaðssviðs og um tíma starfaði hún sem rekstrarstjóri ritstjórnar. Þá tók hún að sér að skapa, ritstýra og vera ábyrgðarmaður margvíslegra blaða og tímarita. Margrét starfaði einnig um tíma hjá KOM almannatengslum sem ráðgjafi. Hún hefur komið að ýmsum nýsköpunarverkefnum sem ráðgjafi á sviði almannatengsla, markaðsmála og stefnumótunar.

Margét tekur við af Rakel Pálsdóttur sem gegnir nú stöðu forstöðumanns markaðs- og kynningarmála hjá SI. „Það er mikill fengur að fá Margréti til okkar. Ráðning hennar er liður í að efla sókn SI út á við og styrkja ásýnd okkar,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI.