Fréttasafn29. jún. 2016 Menntun

Nýr forstöðumaður mennta- og mannauðsmála

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður mennta- og mannauðsmála Samtaka iðnaðarins. Forstöðumaður mennta- og mannauðsmála ber ábyrgð á að vinna að og framfylgja stefnu SI í mennta- og mannauðsmálum þar sem markmiðið er að vinna að því að nægt framboð sé af hæfu starfsfólki fyrir hinn fjölbreytta iðnað í landinu.

Ingibjörg Ösp leiddi Menningarhúsið Hof á Akureyri frá opnun til ársloka 2014. Hún gegndi starfi framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar á árunum 2015-2016. Áður var hún framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar á árunum 2003-2005 og markaðsstjóri KEA frá 2005-2008. 

Ingibjörg Ösp er með MSc gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum á Akureyri og fjallaði hún um útvistun í opinberri stjórnsýslu í meistaraverkefni sínu. Hún er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá rekstrardeild Háskólans á Akureyri. Áður öðlaðist hún reynslu af kennslu auk þess sem hún hefur komið að mótunarstarfi í skóla- og menntamálum.

„Það er ánægjulegt að fá Ingibjörgu Ösp í hóp starfsmanna SI. Menntun og mannauður eru einn af hornsteinum stefnu SI og því mikilvægt að fá til liðs við okkur öflugan sérfræðing til að stýra þessum málaflokki innan okkar raða,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI.