Fréttasafn



4. apr. 2019 Almennar fréttir

Nýr kjarasamningur er tímamótasamningur

Þetta er tímamótasamningur og felur í sér fjórþætta lausn, hærri laun, aukinn sveigjanleika með styttri vinnuviku, meira svigrúm til að haga vinnutímanum, ríkið kemur inn í þetta með margvíslegum hætti en það sem skiptir ekki síst máli eru lægri skattar. Síðan er reynt að byggja undir stöðugleika með það að markmiði að skapa skilyrði til þess að Seðlabankinn geti lækkað vexti. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem rætt var við hann og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, um nýgerða kjarasamninga. 

Sigurður sagði jafnframt að Seðlabankinn væri auðvitað sjálfstæður í sínum ákvörðunum og verði að vega það og meta sjálfur hvort að slíkar aðstæður séu fyrir hendi en það sé sannarlega reynt að sjá til þess í þessum samningi að svo sé. „Það sem er líka nýtt að hagsmunir fari algjörlega saman. Ef að vel gengur þá njóta launþegar þess, þannig að þá verða hækkanirnar meiri og það er vissulega stórt skref.“ 

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.