Nýr stjórnarsáttmáli fagnaðarefni fyrir hugverkaiðnað
Sgríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í Fréttablaðinu að nýr stjórnarsáttmáli sé mikið fagnaðarefni fyrir nýsköpun og hugverkaiðnað í landinu. „Ný ríkisstjórn setur fram öfluga framtíðarsýn og uppskeran verður ríkuleg. Með þeim aðgerðum sem kynntar eru í stjórnarsáttmálanum og breytingum á skipulagi stjórnarráðsins er hugverkaiðnaður formlega festur í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun á Íslandi. Það eru stórkostleg tíðindi enda hefur hugverkaiðnaður nú alla burði til að vaxa enn frekar á komandi misserum og árum.“
Áhersla nýrrar ríkisstjórnar á nýsköpun i iðnaði
Sigríður segir í Fréttablaðinu að tími uppskeru sé fram undan í hugverkaiðnaði. „En mestu máli skiptir að festa á í sessi hvata vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun og liðka fyrir komu sérfræðinga hingað til lands. Stjórnvöld eru með þessu að veðja á nýsköpun og það er nauðsynlegt og skynsamlegt veðmál.“ Hún segir jafnframt í fréttinni að þessi mikla áhersla nýrrar ríkisstjórnar á nýsköpun í iðnaði þýði að við sjáum fram á aukna verðmætasköpun og minni sveiflur í efnahagslífinu til framtíðar. „Landsmenn allir hljóta að fagna þessu enda mun vöxtur hugverkaiðnaðar draga úr sveiflum í þjóðarbúinu og efnahagskerfinu og leiða til þess að hér verða til ný og verðmæt störf og auknar útflutningstekjur til framtíðar. Þannig munu lífsgæði landsmanna að öðru óbreyttu aukast varanlega.“
Fréttablaðið / Frettabladid.is, 2. desember 2021.