Nýr Tækniskóli yrði mikið gæfuspor fyrir framtíð iðn- og verknáms
Það eru gleðilegar fréttir sem berast þessa dagana af aukinni aðsókn í iðn- og starfsnám í Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins, bæði frá þeim sem eru að ljúka grunnskóla og frá eldri nemendum. Aukinni aðsókn fylgja þó áskoranir, meðal annars í aðstöðumálum, sem óhjákvæmilegt er að leysa með samhentu átaki og markvissum aðgerðum. Þetta segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í grein sinni í Fréttablaðinu sem ber yfirskriftina Byggjum nýjan Tækniskóla. Hann segir að Samtök iðnaðarins hafi ávallt lagt þunga áherslu á menntamál í starfsemi sinni. Kjarninn í menntastefnu samtakanna sé að efla íslenskt menntakerfi með markvissum aðgerðum í samstarfi atvinnulífs og skóla þannig að færniþörf atvinnulífsins verði mætt á hverjum tíma. Hann segir jafnframt að menntakerfið sé ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld. Fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði og efling menntaúrræða fyrir þá sem séu nú þegar starfandi á vinnumarkaði séu lykilmarkmið hvað þetta varðar.
Sameina allan rekstur Tækniskólans í einni nýbyggingu á höfuðborgarsvæðinu
Þá kemur fram í grein Árna að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Sérstaklega sé þar vikið að því að auka tækniþekkingu og eflingu iðn-, verk- og starfsnáms í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags. Rími þetta við menntastefnu Samtaka iðnaðarins og áherslur aðgerðaáætlunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kynnt hafi verið í byrjun þessa árs, en henni sé ætlað að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun og fjölga einstaklingum með slíka menntun á vinnumarkaði. Ekki sé því ágreiningur um að gera þurfi áþreifanlegar og nauðsynlegar breytingar í þessum málum. Hann segir í grein sinni að á grunni þessa samhljóms og áætlana sé nú runninn upp tími aðgerða, ekki síst í ljósi mikillar aukningar í aðsókn í iðn- og starfsnám. Eigendur, stjórn og stjórnendur Tækniskólans hafi á síðustu árum skoðað vandlega möguleikann á að sameina allan rekstur skólans í einni nýbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Bygging nýs Tækniskóla væri lykilskref til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar og íslensks atvinnulífs í þessum málaflokki, auk þess sem nútímavæðing á húsnæði skólans muni gera skólann meira aðlaðandi fyrir nemendur sem standi frammi fyrir vali á framhaldsnámi með tilheyrandi samfélagslegum ávinningi.
Skorar á stjórnvöld að láta verkin tala
Jafnframt segir Árni í grein sinni að búið sé að vinna ítarlega þarfa- og valkostagreiningu sem kynnt hafi verið fyrir ráðherrum og áhugi sveitarfélaga á málinu kannaður. Viðtökur ríkis og viðkomandi sveitarfélaga við þessum áformum hafi almennt verið jákvæðar og málið sé nú komið í formlegan farveg. Þá segir hann að atvinnulífið hafi ekki látið sitt eftir liggja og fyrir hönd Samtaka iðnaðarins skori hann því á stjórnvöld að láta verkin tala í þessu þjóðþrifamáli af sama metnaði og stórhug og gert hafi verið í aðstöðumálum skólanna fyrir miðja síðustu öld. Nýr Tækniskóli yrði mikið gæfuspor fyrir framtíð iðn- og verknáms á Íslandi.
Hér er hægt að lesa grein Árna í heild sinni.