Fréttasafn



29. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýsköpun eina leiðin fram á við

Stórstígar og tímabærar breytingar voru gerðar á hvötum til nýsköpunar vorið 2020 og ber þar hæst hækkun á endurgreiðsluhlutfalli og þaki vegna fjárfestinga fyrirtækja í rannsóknum og þróun þar sem enn frekar er hvatt til nýsköpunar á forsendum markaðarins. Það, ásamt hækkun á framlögum til Tækniþróunarsjóðs og stofnun Kríu, nýs sjóðs á vegum ríkisins sem mun fjárfesta í vísisjóðum, skapar skýra hvata til aukinnar nýsköpunar í atvinnulífi. Nýsköpun í dag er verðmætasköpun framtíðarinnar og verðmætin, og þar með störfin, verða til í atvinnulífinu. Nýsköpun er þannig eina leiðin fram á við. Þetta segir Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, meðal annars í grein sinni Sækjum tækifærin sem birt er í tímaritinu Áramót. 

Sigríður bendir á í grein sinni að nýsköpun sé ekki atvinnugrein heldur eigi nýsköpun sér stað í öllum atvinnugreinum og hjá fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Frumkvöðlastarf geti falið í sér mikla nýsköpun og stór fyrirtæki sem hafi fest sig í sessi geti jafnframt stundað mikla nýsköpun. Flóran hér á landi sé mikil, allt frá nýsköpun í tölvuleikjagerð til tækniþróunar í matvælaframleiðslu. Hún segir að tækifærin til aukins vaxtar séu óþrjótandi og ef rétt sé haldið á spilunum geti hugverkaiðnaður orðið stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar þegar fram líða stundir. „Það væri góð efnahagsstefna að setja það í algjöran forgang að þessi sýn verði að veruleika.“

Sigríður segir í grein sinni að við eigum í harðri alþjóðlegri samkeppni um verðmætasköpun og störf og þurfum stöðugt að huga að samkeppnishæfni Íslands í þeirri samkeppni. Tvö nátengd verkefni séu efst á blaði þegar horft sé til ársins 2021; nýfjárfesting og laða meiri þekkingu til landsins. Hún segir að á sviði nýfjárfestinga höfum við verið eftirbátar annarra þjóða undanfarin ár en með samstilltu átaki, skipulagi og skýrri verkaskiptingu sé hægt að snúa blaðinu við. „Við höfum nú þegar horft á eftir stórum og arðbærum fjárfestingum til nágrannaþjóða okkar, meðal annars á sviði upplýsingatækni- og gagnaversþjónustu. Dæmi um það eru tugmilljarða fjárfestingar Microsoft í Svíþjóð annars vegar og Google í Danmörku hins vegar. Fjárfestingar sem skapa störf, þekkingu og gjaldeyristekjur fyrir nágrannaríki okkar.“ Þá segir hún að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að liðkað verði enn frekar fyrir komu erlendra sérfræðinga og frumkvöðla til Íslands. „Það er óhugsandi að byggja upp stór alþjóðleg hátæknifyrirtæki hér án þekkingar utan frá. Þá eru mikil tækifæri fólgin í því að fá hingað frumkvöðla til að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins. Sækjum mannauð og þekkingu, fjármagn og beina fjárfestingu hingað til lands. Það er næsta skref í uppbyggingu hugverkaiðnaðar og eflingu nýsköpunar. Sækjum tækifærin.“

Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni. 

Áramót, 29. desember 2020.