Fréttasafn29. jún. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun ekki eingöngu í sprotafyrirtækjum

Í þættinum Viðskipti á Hringbraut ræðir Jón G. Hauksson við Margréti Kristínu Sigurðardóttur, samskiptastjóra SI, um nýtt tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun sem hún ritstýrir.  „Samtök iðnaðarins kynntu Ár nýsköpunar í byrjun árs 2020. Við áttum ekki von á því að það mundi skella á heimsfaraldur með öllum þeim erfiðleikum sem því fylgir. En við hættum samt ekki við að gefa út tímaritið og kannski er aldrei fyrr jafnmikil þörf á því að minna á mikilvægi nýsköpunar og liður í því er þessi útgáfa. Að vekja fólk til umhugsunar um að nýsköpun geti verið á fjölmörgum stöðum, ekki eingöngu í sprotafyrirtækjum heldur einnig í þessum rótgrónu iðngreinum.“

Í tímaritinu er viðtal við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, sem Jón segir að sé 107 ára gamalt fyrirtæki. „Þeir eru í stöðugri nýsköpun. Ég hugsa að fáir hefðu ímyndað sér að kolsýrt vatn yrði helsta vörumerkið þeirra, það er Kristallinn og hann segir frá því í blaðinu.“

Þegar Jón spyr um forsíðumynd tímaritsins með þeim Óskari Þórðarsyni og Kjartani Gíslasyni stofnendum Omnom segir Margrét að þessir kappar hafi hafið sína vegferð í eldhúsinu heima hjá sér og núna séu þeir með Omnom súkkulaðiverksmiðju úti á Granda og súkkulaðið fari um víða veröld. „Það er gaman að segja frá því að þetta eru æskuvinir og þeir hétu því að fara að vinna einhvern tímann saman þegar þeir voru litlir peyjar á Kjalarnesinu og núna eru þeir með þessa fínu súkkulaðiverksmiðju.“

Þegar talið berst að Alvotech sem er eitt af stóru nýsköpunarfyrirtækjunum og er að framleiða líftæknilyf segir Margrét að í tímaritinu sé áhugavert viðtal við Sesselju Ómarsdóttur hjá Alvotech þar sem hún er að segja frá því sem þau eru að fást við í Vatnsmýrinni. „Þetta er auðvitað gríðarlega stórt fyrirtæki hjá þeim og þau eru með fólk frá 40 löndum hér á Íslandi sem er búið að setjast hér að og starfa hjá þeim. Hún leggur mikla áherslu á að það verði byggður upp svona iðnaður hér á landi til þess að gefa ungu fólki tækifæri til þess að fá störf við hæfi í þessum geira.“

Einnig berst talið að CCP og Margrét segir um Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP: „Ég held að það megi alveg krýna hann helsta frumkvöðul landsins. Hann er að reka þetta stóra og mikla fyrirtæki og þessi leikur sem þeir settu í gang fyrir 23 árum síðan, Eve Online, er verið að spila út um allan heim. Hann leggur áherslu á mikilvægi rannsóknar og þróunar sem þeir stunda mikið og að það verði tekið af þak sem er núna á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði sem var reyndar verið að hækka upp í 1,1 milljarð króna. En þessi stóru nýsköpunarfyrirtæki okkar, eins og Össur, Marel og CCP, eru í raun að stunda rannsóknir og þróun fyrir margfalt þessa fjárhæð.“

Þegar talið berst að því sem kemur fram í tímaritinu að skapa þurfi 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050 segir Jón að það séu 2.000 ný störf á ári næstu 30 árin og það gerist líklega ekki án nýsköpunar. „Nei alls ekki, langt í frá. Við fengum aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, Ingólf Bender, til þess að horfa til ársins 2050 og niðurstaðan úr þeim útreikningi er að það er nauðsynlegt til þess að viðhalda þeim lífskjörum sem við erum með í dag að skapa ný 60 þúsund störf. Ég held að lykillinn sé nýsköpun.“ 

Margrét segir að virkja þurfi hugvitið og þegar Jón spyr hana hvort hugvitið sé kannski stóriðja næstu 30 ára? „Já við erum að veðja á það hjá samtökunum, að við getum búið til nýja stoð sem felst þá í hugvitinu eða nýsköpuninni. Með því að styðja við það og styrkja að þá getum við skapað öll þessi nýju störf sem hagfræðingurinn okkar segir að þurfi að búa til.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Margréti frá mínútu 20:58.

Hringbraut-25-06-2020-7-Jón G. Hauksson stýrir þættinum Viðskipti á Hringbraut.

Hringbraut-25-06-2020-6-Margrét Kristín Sigurðardóttir, samskiptastjóri SI og ritstjóri tímarits SI um nýsköpun.

Hringbraut-25-06-2020-9-Jón G. Hauksson og Margrét Kristín Sigurðardóttir í þættinum Viðskipti á Hringbraut.