Fréttasafn



7. okt. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn

Nýsköpunarstefnan sem hér er kynnt á að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn. Nýsköpun er ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga. Þetta kemur fram í inngangi sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, skrifar í nýútkominni skýrslu Nýsköpunarlandið Ísland þar sem nýsköpunarstefna fyrir Ísland er kynnt. Stefnunni er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.

Í stefnunni er sett fram sýn til ársins 2030 með það markmið að Ísland sé fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims, samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.

Við mótun stefnunnar tóku þátt fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Vinnu stýrihóps leiddi Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant. Í stýrihópnum voru auk Guðmundar: Ari Kristinn Jónsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,  Davíð Helgason, Eyjólfur Guðmundsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Helga Valfells, Hjálmar Gíslason, Inga Sæland, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Kristján Hall, Líneik Anna Sævarsdóttir, María Bragadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ragnheiður Magnúsdóttir, Sigurður Hannesson, Steinunn Gestsdóttir og Tryggvi Hjaltason.

Hér er hægt að nálgast stefnuna í heild sinni.