Fréttasafn10. mar. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýsköpun er lykilorðið

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, viðskiptastjóri hjá Marel, flutti framsögu fyrir umræður um samskipti og gögn:

Munið þið þegar fyrsti iPhone-inn kom fyrst? Nú eru komin 10 ár síðan og mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Stór partur ef velgengninni er því að þakka að Apple setti upp Appstore sem gaf hverjum sem var möguleika á því að búa til ný öpp og hér erum við 10 árum síðar djúpt sokkin í þessi litlu tæki sem við berum með okkur öllum stundum.

Það er kannski ekki furða því að í dag getum við pantað okkur mat, bíl og hótel í gegnum þessi litlu tæki, eða jafnvel fundið vinnu eða kærustu/kærasta. Á þessum 10 árum hefur átt sér stað sjálfvirknivæðing og núna erum við að nálgast alveg nýja tæknibyltingu, fjórðu iðnbyltinguna. Í dag er í boði að nota tækni eins og Internet hlutanna (IoT), Sýndarveruleika (VR), Viðbótarveruleika (AR), róbótavæðingu, gervigreind, nanótækni o.fl. Þessi tækni er tilbúin í dag og er bara að bíða eftir því að heimurinn taki við sér og búi til ýmsa þjónustu úr þessu.

Já fjórða iðnbyltingin er hér og breytingarnar eru hraðar. Við erum að tala um veldisvöxt, ekki línulegan vöxt og við verðum að búa okkur undir þessar breytingar og allir þurfa að taka þátt. Opinberar stofnanir, atvinnulífið og einstaklingar. Við þurfum að huga að mörgu eins og til dæmis uppbyggingu gagnavera eins og kom fram í innslaginu hér á undan, sjálfvirknivæðingu á opinberri þjónustu og gera breytingar á menntakerfinu okkar. 

Tækifærin liggja í tækni og hugviti og við hér á Íslandi erum sterk á sérsviðum. Orkutengdar greinar, sjávarútvegur, leikjaiðnaðurinn og heilbrigðistækni koma upp í hugann. En við verðum að horfa fram í tímann og huga að innviðunum.

Nýsköpun er lykilorðið. Getum við gert eins og Svíarnir og ákveðið að verða Nýsköpunarland? Ef svo er, erum við þá með það sem til þarf?