Fréttasafn



13. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Nýsköpun í vistvænni matvælaframleiðslu

Samtök iðnaðarins, Matís, Háskóli Íslands og Nýsköpunarmiðstöð eru aðilar að Ecotrophelia Europe sem er alþjóðleg keppni um nýsköpun í vistvænni matvælaframleiðslu og er haldin í tengslum við eina stærstu matarráðstefna í heimi SIAL í Frakklandi. 

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við þrjár ungar konur sem eru á leið til Parísar til að kynna afurðir sínar í keppninni, þær Braga Mileris, Hildur Guðrún Baldursdóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir. Auk þess fer Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs SI, einnig til Parísar og verður dómari en dómarar í keppninni koma frá 20 löndum.

Braga er á fyrsta ári í meistaranámi í matvælafræði, Hildur Guðrún á lokaári í BS námi í sama fagi og Birta Rós er nýútskrifaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands. Í viðtalinu segja þær afurðirnar sem þær eru að fara með í keppnina vera algjört nammi, hollt og trefjaríkt. Keppnin fer fram næstkomandi mánudag þar sem þær stöllur leggja fram afurðir sínar sem hafa verið þróaðar úr byggi sem er ræktað á Þorvaldseyri sem er lítið býli undir Eyjafjallajökli og er upprunans getið á umbúðunum. Afurðirnar nefnast Arctic Barley, Arctic Snack og Arctic Muesli. Í Morgunblaðinu er haft eftir þeim að þar sem byggið er hollt og trefjaríkt hafi þær viljað að vörurnar væru það líka og stæðu undir því að vera markaðssettar sem heilsuvara. „Einfaldar, næringarríkar og góðar á bragðið, að mestu framleiddar úr íslensku hráefni og á vistvænan hátt.“

Nánar um keppnina