Fréttasafn



8. feb. 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun leysir samfélagsleg viðfangsefni og skapar verðmæti

Nýsköpun varðar hagsmuni í framtíðinni. Nýsköpun í atvinnulífinu mun eiga stóran þátt í því að fást við þau samfélagslegu viðfangsefni sem heimsbyggðin glímir við og með því að skapa kjöraðstæður fyrir hugvitsdrifna starfsemi fyrirtækja hér á landi mun Ísland leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta þessum áskorunum með tilheyrandi arði sem í því felst fyrir þjóðarbúið. Þetta kom meðal annars fram í erindi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á opnum fundi í Iðnó í gær þar sem nýsköpunarstefna SI var kynnt. Þar var Sigurður að vísa til þeirra þriggja helstu viðfangsefna sem samfélög standa frammi fyrir og  tengjast öldrun þjóða, fjórðu iðnbyltingunni og umhverfis- og loftslagsmálum. 

Þá sagði Sigurður að auk þess sem nýsköpun skipti miklu máli við að leysa samfélagsleg viðfangsefni þá skapi hún aukin verðmæti. Hann sagði að á undanförnum árum hafi unnist margir sigrar í nýsköpunarmálum hér á landi og síðast í desember þegar þök á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar voru tvöfölduð og frekari umbætur urðu á löggjöfinni. „Ég vil nota tækifærið og hrósa Þórdísi Kolbrúnu, ráðherra málaflokksins, fyrir áhuga sinn og eftirfylgni á málinu. En höfum hins vegar hugfast að ríki heims vinna stöðugt að því að bæta sína stöðu og þar með þurfum við að gera enn betur til að dragast ekki aftur úr. Nú er í mótun nýsköpunarstefna stjórnvalda sem unnin er í víðtæku samráði og er nýsköpunarstefna Samtaka iðnaðarins innlegg iðnaðarins í þá vinnu. Við hlökkum til að sjá nýsköpunarstefnu stjórnvalda og bindum við miklar vonir við að sú stefna leggi grunninn að nýsköpunarlandinu Íslandi. Tími til athafna er núna.“