Nýsköpun og líftækni í matvælaframleiðslu
Nýsköpun og líftækni í matvælaframleiðslu framtíðarinnar verða til umfjöllunar á fundi Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins í Hörpu á fimmtudaginn kl. 9-10. Hægt er að horfa á beina útsendingu á vef Íslandsstofu en fundurinn sem ber yfirskriftina The future of Food fer fram á ensku. Skráðir þátttakendur fá senda slóð á útsendinguna.
Á fundinum verður spurt að því hvernig fæða eigi 10 milljarða manna. Stjórnendur og frumkvöðlar frá Íslandi og Singapúr leiða saman hesta sína í Hörpu og verður varpað ljósi á leiðir til að leysa þetta verkefni.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, setur fundinn ásamt Lim Thuan Kuan, sem er nýr sendiherra Singapúr gagnvart Íslandi. Þá flytja Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Dilys Boey, aðstoðarframkvæmdastjóri Enterprise Singapore (ESG) erindi auk fjölda fulltrúa úr atvinnulífi Íslands og Singapúr. Frá Íslandi verða sögur frá Controlant, Orf líftækni og Sjávarklasanum. Frá Singapúr verður sagt frá starfsemi Marel þar í landi og af matvælaframleiðslu þar sem stofnfrumur koma við sögu svo fátt eitt sé nefnt.