Nýsköpun og vöruþróun í málm- og skipaiðnaði
Á rafrænum fræðslufundi Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem fór fram í síðustu viku var fjallað nýsköpun og vöruþróun í rótgrónum fyrirtækjum í málm- og skipaiðnaði. Gunnar Pálsson, verkfræðingur og þróunarstjóri Héðins hf., og Hannes Ottósson, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís, héldu erindi.
Gunnar lagði í sínu erindi áherslu á mikilvægi þess að virkja sköpunarafl mannauðs innan fyrirtækja til þess að þróunarstarf gæti blómstrað. Til þess þyrfti jafnframt skipulag, markmið og skilvirkni. Fyrirtæki í málm- og skipaiðnaði þurfa að hafa aðlögunarhæfni til að daga ekki uppi vegna örra tæknibreytinga. Þróun og framför á vélrænum búnaði byggir á uppfinningum og prófunum ásamt framúrskarandi þekkingu á eðlisfræði og sambærilegum alþjóðlegum búnaði.
Héðinn hf. á að baki 100 ár í þróunarstarfi þar sem þarfir sjávarútvegsins hafa verið í forgrunni. Afrakstur fyrirtækisins má rekja til náins samstarfs við viðskiptavini og ítarlegrar þarfagreiningar. Þá kvað hann frjóustu sköpunartímabil fyrirtækisins hafa verið á erfiðum tímum, þ.e. tímum lítilla umsvifa en þá hafi tíminn verið nýttur í hugarflug, skipulag og skilvirkni. Sagði hann frá upphafi gerðar HPP véla en framleiðslu þeirra má rekja til þess að á 8. áratug síðustu aldar féll verð á próteini og fóðurolíum og þær vélar sem buðust voru úreltar, of dýrar, mannfrekar og menguðu mikið. Ljóst var að skortur var á skipulagi í gegnum alla virðiskeðjuna, allt frá hráefni til sölu afurða. Árið 2008 var farið í þróunarvinnu og lagt var kapp á að koma HPP tækninni á markað. Það var svo árið 2015 sem fyrstu vélarnar fóru í sölu. Síðan þá hefur Héðinn hf. selt fjölda véla á Íslandi, Færeyjum, Bandaríkjunum og Noregi. Greindi hann frá því að á þeirri vegferð hafi gengið á ýmsu en lykillinn hafi verið samtal við viðskiptavini ásamt skilvirkni og skipulagi. Lagði hann áherslu á að í þróunarvinnu er ekkert skýrt upphaf né endanlegur sigur, heldur væri vinnan langvarandi vegferð. Að lokum sagði hann íslenskan sjávarútveg vera framúrskarandi þegar kemur að hafrannsóknum, skipulagi veiða, veiðarfærum, vinnslu og búnaði, geymslu og nýtingu afurða. Lauk hann erindi sínu með hvatningarorðum; að ekkert væri því til fyrirstöðu að athafnamenn í greininni tækju afgerandi forystu á heimsvísu í nýtingu alls þess sem fellur til af úrgangi, allt frá vinnslu fisks til manneldis.
Myndin sýnir tækni sem Héðinn þróaði fyrir próteinverksmiðju.
Skattafrádráttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar
Hannes Ottósson fjallaði um skattafrádrátt fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Greindi hann frá því að þó nokkur fyrirtæki innan Málms hafi þegar nýtt sér úrræðið. Fór hann yfir umsóknarferlið og þau skilyrði sem verkefni þarf að uppfylla. Þá hvatti hann fudargesti til þess að kynna sér styrkjaumhverfið á heimasíðu Rannís.