Fréttasafn21. jan. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun skapar fyrirtækjum forskot í samkeppni

Með ári nýsköpunar vilja Samtök iðnaðarins hvetja til nýsköpunar og þess að við virkjum hugvitið í meira mæli til þess að drífa vöxt framtíðar. Í ár verða fjölmargir viðburðir þar sem fjallað verður um nýsköpun frá ýmsum hliðum, út frá helstu greinum og frá helstu áskorunum sem við blasa. Þannig vonumst við til að hvetja til frekari nýsköpunar enda skapar hún fyrirtækjum forskot í samkeppni, skapar verðmæti og störf og leysir áskoranir framtíðar. Þetta kom fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, þegar Ári nýsköpunar 2020 var ýtt úr vör með formlegum hætti í gær í húsakynnum Völku í Vesturvör í Kópavogi. 

Sigurður þakkaði Völku fyrir góðar móttökur og sagði það fara vel á því að hefja ár nýsköpunar í húsakynnum Völku en fyrirtækið hafi náð miklum árangri með nýsköpunarstarfi þar sem hugvit og verkvit væri samofið til að framleiða hátæknibúnað sem nýtist til verðmætasköpunar víða um heim og skapi um leið gjaldeyristekjur og verðmæti hér á landi.

Afhjúpað var nýtt myndmerki og sagði Sigurður að peran væri alþjóðleg táknmynd nýsköpunar og tilgangurinn með því að hafa Ísland inn í perunni sé að sýna að við viljum að kraftar nýsköpunar flæði um allt Ísland. „Kveikjum á perunni og leggjum grunn að vexti framtíðar.“

Í lokaorðum sínum sagði Sigurður að það væri áskorun að atvinnulíf, stjórnvöld og samfélagið allt tækju höndum saman í að efla nýsköpun hér á landi en með samtakamætti muni okkur takast að gera Ísland að nýsköpunarlandi. „Við hlökkum til árs nýsköpunar.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_valka_nyskopunarland_b-4Myndmerki ársins afhjúpað, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, formaður SI, Eliza Reid, forsetafrú, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

Si_valka_nyskopunarland_b-14

Si_valka_nyskopunarland_b-2

Si_valka_nyskopunarland_b-23