Fréttasafn28. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýsköpunarhraðallinn Hringiða opnar fyrir umsóknir

Samtök iðnaðarins hafa gert samkomulag við KLAK - Icelandic Startups um árleg framlög til viðskiptahraðals félagsins, Hringiðu, sem er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfis- og loftslagsmálum með það fyrir augum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búin að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og sækja styrki í Evrópusjóði sem styðja verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. SI hefur um árabil verið bakhjarl félagsins og á sæti í stjórn Klak.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í frétt Vísis um nýsköpunarhraðalinn Hringiðu að fjárfesting í nýsköpun sé forsenda verðmætasköpunar. „Samtök iðnaðarins hafa á undanförnum árum lagt ríka áherslu á nýsköpun enda er fjárfesting í nýsköpun forsenda áframhaldandi verðmætasköpunar og útflutnings. Að undanförnu höfum við jafnframt sett enn meiri áherslu á orku-, umhverfis- og loftslagsmál. Græn iðnbylting stendur nú yfir en nýsköpun og tækniþróun, orkuskipti og fjárfesting í grænni tækni leika þar lykilhlutverk. Loftslagsmarkmið Íslands eru í senn mikilvæg og metnaðarfull og ljóst er að til að ná fullum orkuskiptum og verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við að auka framboð af innlendri grænni orku en einnig fjárfesta í rannsóknum og þróun og tækni á sviði orku- og loftslagsmála. Hringiða fellur vel að þessum markmiðum og áherslum SI í grænni iðnbyltingu og nýsköpun.“

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir Hringiðu og er umsóknarfrestur til og með 4. apríl. Tekið er á móti umsóknum á vefsíðu Hringiðu.

Hringida-2022_samningar_SI-Faxafloahafnir-Terra-Olgerdin_AÁ myndinni eru, talið frá vinstri, Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAKS og Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra. Myndin er tekin í Grósku við undirritun samstarfssamnings.