Fréttasafn



18. maí 2022 Almennar fréttir Menntun Nýsköpun

Nýsköpunarlykillinn eflir nýsköpunar- og frumkvöðlafærni

Formleg opnun á Nýsköpunarlyklinum sem Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins styrkti um 6,5 milljónir króna fór fram á skrifstofu SI í Húsi atvinnulífsins. Nýsköpunarlykillinn er opin vefsíða þar sem hægt er að nálgast nokkurs konar verkefnabanka sem er ætlaður kennurum í grunnskólum landsins. Markmiðið með Nýsköpunarlyklinum er að auðvelda grunnskólakennurum aðgengi að efni sem eflir nýsköpun í skólastarfi.

Á vefsíðunni geta kennarar nálgast sex heildstæð þemaverkefni og kennsluáætlanir sem gefa nemendum tækifæri til að efla nýsköpunar- og frumkvöðlafærni sína. Þar er einnig hægt að sækja gæðahandbók fyrir grunnskóla sem vilja fá formlega staðfestingu á að þeir séu nýsköpunarskólar.

Verkefnin taka mið af áherslum í aðalnámskrá grunnskóla sem miðar að því að samþætta bóknáms-, list- og verkgreinar. Í verkefnunum eru mismunandi áherslur eftir skólastigum á sköpun, sjálfbærni, heilbrigði, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins er meðal annars ætlað að styðja við verkefni sem efla menntun og nýsköpun. Það er því ánægjulegt að Nýsköpunarlykillinn sem sameinar þetta tvennt sé orðinn að veruleika. Samtök iðnaðarins hafa lengið talað fyrir mikilvægi nýsköpunar enda er um að ræða einn af lykilþáttum þess að ná árangri í aukinni verðmætasköpun. Það er því jákvætt að grunnskólakennarar hafi núna gott aðgengi að verkefnum til að efla nýsköpunar- og frumkvöðlafærni nemenda sinna.“

Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Ásgarðs sem er eigandi Nýsköpunarlykilsins: „Nýsköpunarlykillinn er afrakstur mikillar vinnu sem hefur staðið yfir í rúmt ár og mun halda áfram að þróast. Með veglegum styrk Framfarasjóðs SI gátum við hraðað vinnunni enda er mikil þörf á aðgengi að góðu kennsluefni til að hvetja til nýsköpunar. Í verkefnunum er lögð mikil alúð við að tengja saman hug og hönd þannig að hægt verði að leggja grunn að frumkvöðlafærni nemenda. Okkar ósk er að efnið sem hægt er að nálgast á vefsíðunni nýtist sem flestum grunnskólum landsins.“

Vefslóðin er: https://nyskopunarlykillinn.is/

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi, og Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Ásgarðs. Mynd/Heiða

Fréttablaðið, 18. maí 2022.

Trölli, 18. maí 2022.