Nýsköpunarsjóður námsmanna fær 100 milljónir aukalega
Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur opnað fyrir umsóknir á ný í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Sjóðurinn fékk úthlutað aukalega 100 milljónum króna í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna efnahagslegrar áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar á Íslandi. Þetta er ríflega tvöföldun á úthlutunarfé sjóðsins og er ætlunin að koma fjármununum í umferð sem fyrst til þess meðal annars að sporna gegn atvinnuleysi ungs fólks í sumar.
Sjóðnum er ætlað að styðja fyrirtæki, háskóla og rannsóknarstofnanir til að ráða grunn- og meistaranema við háskóla landsins til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Umsóknarfrestur úr sjóðnum verður til 4. maí næstkomandi.
Félagsmenn SI eru hvattir til þess að sækja um í sjóðinn en eitt skilyrði úthlutunar er að verkefni hafi hagnýtt nýsköpunargildi fyrir atvinnulíf. Þá segir í upplýsingum um sjóðinn að dæmi séu um að nýsköpunarverkefni hafi velt af stað viðameiri þróunarverkefnum innan fyrirtækja. „Ungt fólk er oft djarft og frjótt í hugsun og fyrirtæki hafa verið tilbúin til að fjárfesta í hagkvæmnisathugun með aðstoð Nýsköpunarsjóðs námsmanna.“
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Rannís.