Fréttasafn24. nóv. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Nýsköpun

Nýstofnuð Samtök menntatæknifyrirtækja

Samtök menntatæknifyrirtækja er nýr starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Stofnfundur samtakanna var haldinn í gær í Háalofti Hörpu. Í stjórn Samtaka menntatæknifyrirtækja eru Íris E. Gísladóttir hjá Evolytes sem er formaður, Eloise Freygang hjá Beedle, Jón Gunnar Þórðarson hjá Mussila, Hinrik Jósafat Atlason hjá Atlas Primer og Helgi S. Karlsson hjá Beanfee.

Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja og stofnandi Evolytes: „Menntatæknifyrirtæki hafa átt erfitt uppdráttar hér á landi meðal annars vegna hamlandi regluverks. Með stofnun samtakanna viljum við auka þekkingu á menntatækni sem iðngrein og hafa áhrif á umbætur í starfsumhverfinu þannig að samkeppnishæfni menntatæknifyrirtækja eflist. Við viljum auka tengsl við atvinnulífið, rannsóknasamfélagið og skólasamfélagið, allt frá leikskóla upp í háskóla. Kennsla fyrir störf framtíðarinnar byggir á aukinni notkun upplýsingatækni og því er mikilvægt að menntatækni verði nýtt til fulls í skólakerfinu.“

Í Samtökum menntatæknifyrirtækja eru fyrirtæki sem öll starfa í menntatækniiðnaði sem er á alþjóðavísu metinn á 24.000 milljarða króna með ríflega 16% stöðugan vöxt milli ára. Menntatækni er rótgróin iðngrein sem á sér áratuga sögu en á Íslandi er greinin tiltölulega ung. Hún hefur þó burði til að geta bætt árangur nemenda hér á landi, auka gildi íslenskunnar og rennt fleiri stoðum undir íslenskt hagkerfi. Með aukinni nýtingu á menntatækni er hægt að umbylta kennsluaðferðum og ná meðal annars betri árangri í læsi og stærðfræði. Samtökin hafa það að markmiði að vinna að hagsmunum og stefnumálum menntatæknifyrirtækja, ásamt því að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í heild sinni íslensku menntakerfi til framdráttar. Heiti samtakanna á ensku er Icelandic Edtech Industry, IEI.

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir frá stofnfundinum.

Frá stofnfundi Samtaka menntatæknifyrirtækja í Hörpu. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Árni Sigurjónsson formaður SI, Jón Gunnar Þórðarson hjá Mussila, Eloise Freygang hjá Beedle, Íris E. Gísladóttir hjá Evolytes, Helgi S. Karlsson hjá Beanfee, Hinrik Jósafat Atlason hjá Atlas Primer og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI. Mynd/BIG


Fréttablaðið, 24. nóvember 2022.