Fréttasafn



8. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýtt fræðslurit um sjálfbærni pappírs- og prentiðnaðar

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, var afhent nýtt fræðslurit um sjálfbærni pappírs í dag. Í ritinu er farið yfir sleggjudóma og staðreyndir sem varða vinnslu pappírs. Til dæmis þá staðreynd að pappírs- og prentiðnaður á norðurhveli jarðar tryggir heilbrigða og vaxandi skóga og notar virt vottunarkerfi sem tryggja að pappírinn sé unninn úr sjálfbærum skógi. Fræðsluritið er gefið út í samstarfi IÐUNNAR fræðsluseturs, Samtaka iðnaðarins, Grafíu og pappírsinnflytjenda og stuðst er við rannsóknir Alþjóðaefnahagsþingsins og kynningarefni frá alþjóðlegu samtökunum Two Sides sem hafa það að markmiði að upplýsa um sjálfbærni pappírs- og prentiðnaðar.

Í tilkynningu segir að það sé full þörf á upplýsingum um sjálfbærni þessa iðnaðar sem hefur átt undir högg að sækja og oft stillt upp að ósekju sem óumhverfisvænum kosti. Prentun færist einnig í auknum mæli út fyrir landsteinana. Nú sé til dæmis svo komið að 78% bókatitla séu prentaður erlendis.

Á myndinni eru Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir hjá Prentmet Odda, Kristjana Guðbrandsdóttir hjá Iðunni og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra með nýja fræðsluritið í höndunum.

Hér er hægt að nálgast fræðsluritið.

Forsida-fraedslurits