Fréttasafn



29. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýtt Matvælaráð Samtaka iðnaðarins

Nýtt Matvælaráð Samtaka iðnaðarins hefur verið sett á laggirnar. Í ráðinu sitja Rannveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Kötlu, sem er formaður ráðsins, Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Siríus, Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, Stefán Magnússon, markaðsstjóri CCEP á Íslandi, Sæmundur Sveinsson, fagstjóri Matís, og Valmundur Pétur Árnason, framkvæmdastjóri Lostæti Austurlyst.

Matvælaráð SI er vettvangur umræðu um stöðu matvælaiðnaðar á Íslandi, greininga og margvíslegrar stefnumótunar ólíkra matvæla- og drykkjarframleiðenda innan Samtaka iðnaðarins.

Matvælaiðnaður á Íslandi skapar 4,6% landsframleiðslunnar sem eru ríflega 122 milljarðar króna og í greininni eru starfandi um 10.400 sem er 5% af heildarfjölda starfandi í landinu.

Matvælaráð SI áformar í haust að efna til umræðu um stöðu íslenskra matvælaframleiðenda, helstu áskoranir og tækifæri í atvinnugreininni.

Mynd/Birgir Ísleifur

Á myndinni eru, talið frá vinstri í efri röð, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Stefán Magnússon, markaðsstjóri CCEP á Íslandi, Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri hjá SI, Sæmundur Sveinsson, fagstjóri Matís, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI. Í neðri röð eru Valmundur Pétur Árnason, framkvæmdastjóri Lostæti Austurlyst, Rannveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Kötlu og formaður Matvælaráðs SI, og Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Siríus.