Fréttasafn20. ágú. 2015 Gæðastjórnun

Nýtt strikamerki, Databar, auðveldar rekjanleika og dregur úr sóun

 

Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og GS1 stóðu fyrir kynningarfundi um strikamerkið Databar í Húsi atvinnulífsins sl. þriðjudag. Á fundinn komu rúmlega þrjátíu manns úr framleiðslu- og innflutningsfyrirtækjum, verslunarkeðjum og hugbúnaðarhúsum.

 

Databar er ný tegund strikamerkis sem getur geymt mun meiri upplýsingar en strikamerkið sem nú er í notkun hér á landi. GS1 hefur haft þetta strikamerki til skoðunar í þó nokkur ár og hefur að undanförnu verið að prófa sig áfram með notkun þess í samstarfi við Reykjagarð. Merkið er orðið nokkuð útbreitt annars staðar í heiminum, mismunandi eftir löndum, en hefur enn ekki komist í almenna notkun hér á landi.

 

Benedikt Hauksson hjá GS1 Ísland gerði grein fyrir tækninni á bak við Databar strikamerkið. Databar er mun fyrirferðarminna en venjulegt strikamerki, þrátt fyrir að geta geymt miklu meiri upplýsingar, sem hefur þann kost að hægt er að nota það á mjög litla fleti og rúnnaða eins og t.d. ávexti. Tækni við að lesa strikamerki hefur tekið byltingarkenndum framförum frá því að strikamerki voru upphaflega tekin í notkun árið 1974. Allir skannar sem nú eru í verslunum hér eiga að geta lesið Databar merkið ekkert síður en venjuleg strikamerki. Stærstu kostir við merkið eru að það getur geymt upplýsingar sem nýtast við rekjanleika, auðvelda innköllun og geta dregið úr sóun.

 

Ragnar Hjörleifsson hjá Reykjagarði sagði frá vinnu síns fyrirtækis við að prófa sig áfram með Databar. Merkið geymir m.a. upplýsingar um framleiðslulotu og geymsluþol. Verkefnið hefur þróast i samstarfi við GS1 og nú er farið að prenta Databar á umbúðir hjá Reykjagarði auk venjulegs strikamerkis. Það þýðir að um leið og verslanir taka upp þetta kerfi eru Reykjagarðsvörurnar tilbúnar. Stærstu kostir sem Reykjagarður sér við notkun Databar eru:

 

  1. Rekjanleiki. Lotunúmer í strikamerkinu gerir allan rekjanleika mun auðveldari. Komi til innköllunar á vöru geta búðarkassar séð um að stoppa vöru sem er í innköllun þannig að hún fari ekki út úr versluninni.

  2. Minni sóun. Upplýsingar um geymsluþol í strikamerki gefur möguleika á að selja útrunna vöru, eða vöru sem er við það að renna út, með afslætti sem kassinn sér sjálfur um að gefa. Það þyrfti þó að kynna vel fyrir neytendum þannig að þeir sem vilja kaupa slíka vöru séu meðvitaðir um það. Þetta gæti dregið úr þörf fyrir að farga útrunninni vöru sem er í anda samfélagslegrar ábyrgðar sem felst í að draga úr matarsóun.

Í umræðum kom fram að framleiðendur eru mjög áhugasamir um notkun DataBar en verslunin meira hikandi, sérstaklega varðandi kostnað við að breyta kassakerfum. Hugbúnaðarmenn töldu þó að ekki þurfi mikla forritunarvinnu til að breyta núverandi kassakerfum þannig að þau ráði við merkið. Aðeins eru 4-5 kerfi í gangi í verslunum á Íslandi og ætti ekki að vera mikið má l að breyta þeim. Á fundinum var varpað fram þeirri hugmynd að hugbúnaðarhúsin útfæri tilbúnar lausnir til að bjóða verslunum þannig að þær viti um hvaða kostnað er að ræða.