Fréttasafn



2. okt. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Nýtt umsóknarviðmót byggingarleyfa einfaldar ferli

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, tók þátt í pallborðsumræðum á fundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem haldinn var í gær í tilefni af innleiðingu á nýju umsóknarviðmóti byggingarleyfa. Á fundinum var fjallað um þróun og innleiðingu viðmótsins sem er hluti af stærri vegferð í átt að samræmdu starfsumhverfi í mannvirkjagerð. Jóhanna Klara nefndi m.a. að í skýrslu Alþjóðabankans sem kom út í apríl á þessu ári hafi verið fjallað um þau tækifæri sem felist í því að draga úr löngu ferli leyfisveitinga hér á landi. Samvæmt skýrslunni taki það að meðaltali 109 daga að fá afgreitt byggingarleyfi hér á landi samanborið við um 92 daga í Evrópu og Mið-Asíu. Heilt yfir taki það þó að meðaltali 64 daga að fá slík leyfi. Hún sagði að hér á landi ættum við að miða okkur við lönd sem eru nær okkur, t.d. Danmörk. Þar í landi væri meðal afgreiðslutími leyfa 58 dagar. En mikill munur væri milli sveitarfélaga þar eða um 248 dagar. Jóhanna Klara sagði að með því að sameina viðmótið hér á landi og ferlana getum við komið í veg fyrir svona mikið misræmi og unnið að því að bæta ferla þar sem þörf væri á. Jafnframt kom fram í máli hennar að í skýrslu á vegum SME Danmark sem birtist í apríl á þessu ári hafi komið fram að árlega sé verið að sóa um 1,3 milljónum daga í óþarfa biðtíma í byggingarleyfisferlinu í Danmörku. Hún sagð að ef við heimfærðum þær tölur yfir á okkar ferli sem taki ekki 58 daga heldur 109 að meðaltali væri dagarnir margir sem væri verið að sóa. 

Viðmótið sem er aðgengilegt á byggingarleyfi.hms.is einfaldar og samræmir ferlið við umsókn og útgáfu byggingarleyfa. Nú eru 14 sveitarfélög með 44,8% íbúða á landinu tengd við kerfið. 

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti ávarp á fundinum auk Líf Magneudóttur, formanns Borgarráðs Reykjavíkur. Þá kynnti Hugrún Ýr Sigurðardóttir, teymisstjóri HMS, kerfið. Að lokum var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku eftirtaldra auk Jóhönni Klöru: Jón Björn Hákonarson, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt hjá Batteríinu, Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri sviðs mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS. Fundarstjóri var Jónas Atli Gunnarsson teymisstjóri HMS.

Nánar má lesa um verkefnið hér.

Á vef Stjórnarráðsins má nálgast nánari upplýsingar um fundinn.

Á vef HMS má nálgast upptöku af fundinum.