Fréttasafn23. jún. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýtt vörumerki á skyrinu frá MS

Eitt af aðildarfyrirtækjum Samtaka iðnaðarins, MS, kynnti í gær nýtt vörumerki fyrir skyr sem nefnist ÍSEY skyr sem kemur í staðinn fyrir Skyr.is. Í fréttatilkynningu frá MS segir að stefnt sé að því að byrja að nota nýja vörumerkið á Íslandi, Sviss og Englandi á þessu ári. Þar segir að nafnið Ísey sé séríslenskt kvenmannsnafn en íslenskar konur hafi öldum saman séð um að búa til skyr. Nafnið Ísey vísar einnig sterkt í upprunann og þykir nafnið hentugt vegna þess að það er stutt og einfalt og auðvelt að bera fram á mismunandi tungumálum. Til að hafa samræmi og heildstæða stefnu í markaðs- og vörumerkjavinnu með íslenska skyrið er vörumerkið ÍSEY skyr einnig tekið upp á Íslandi.

Í tilkynningunni segir jafnframt að skyrsala MS á Íslandi og á erlendum mörkuðum hafi aldrei verið meiri en á árinu 2016. MS og samstarfsaðilar þess á Norðurlöndum seldu um 16.000 tonn af skyri á síðasta ári. Á Íslandi seldist um 3.000 tonn og erlendis voru seld um 13.000 tonn. Söluaukning á skyr.is innanlands var um 25% á síðasta ári og er skýringin á þessari miklu söluaukningu innanlands rakin til aukins ferðmannastraums til landsins. 

Í tilefni breytinganna var boðið til veislu í Heiðmörk þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.