Fréttasafn



27. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Nýtum nýtt ár til góðra verka

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um árið framundan í ViðskiptaMogganum þar sem yfirskriftin er Nýtum nýtt ár til góðra verka. Grein Sigurðar fer hér á eftir:

Á Íslandi eru tækifærin víða. Ef horft er til lengri tíma þá er auðvelt að ímynda sér vöxt í efnahagslífinu sem stafar meðal annars af öflugum og fjölbreyttum iðnaði. Iðnaður hefur þróast hratt undanfarin ár þar sem hugverkaiðnaður hefur orðið fjórða stoð útflutnings til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður hefur vaxið og gæti orðið verðmætasta útflutningsstoðin við lok áratugarins ef rétt er á málum haldið. Salan á Kerecis, fyrsta íslenska einhyrningnum, sýnir glöggt hvaða verðmæti felast í öflugum iðnaði og þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir. Með vexti iðnaðar verða til verðmæt og eftirsótt störf. Ríflega fimmtíu þúsund manns starfa nú í fjölbreyttum iðnaði um land allt og skapa verðmæti dag hvern.

Undanfarin ár hafa stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja tekist á við margvíslegar áskoranir og aðdáunarvert hefur verið að sjá hve vel hefur tekist á við þær. Í ár hafa verðbólga og háir vextir auk annarra kostnaðarverðshækkana haft áhrif á reksturinn. Það er jákvætt að sjá verðbólgu lækka nú í árslok og vonandi fer hún hratt niður á nýju ári, það er sannarlega til mikils að vinna. Brýnt er að ná kjarasamningum til lengri tíma sem stuðla að stöðugleika, lægri verðbólgu og vöxtum. Þannig verður auðveldara að sækja tækifærin sem eru víða í kringum okkur og renna þannig stoðum undir bætt lífskjör. 

Við sem samfélag stöndum frammi fyrir því að þurfa að taka stórar ákvarðanir sem ráða munu miklu um lífskjör landsmanna næstu ár og áratugi. Þau sem á undan okkur komu tóku stórar ákvarðanir um að fjárfesta í innviðum og mannauði og það skilaði Íslandi í fremstu röð á nokkrum áratugum. Ráðast þarf í uppbyggingu til að mæta þörfum samfélagsins á ýmsum sviðum. Nú er staðan sú að skerða þarf raforku til notenda þriðja veturinn í röð og fyrirséð er að svo verði næstu ár þar til aukin raforka kemur inn á kerfið. Byggja þarf fleiri íbúðir til að mæta þörfum landsmanna og koma á stöðugum húsnæðismarkaði. Að sama skapi þarf að fjárfesta í menntun til að mæta þörfum fjölbreytts atvinnulífs. Byggjum á reynslu fortíðar til að sækja tækifærin.

ViðskiptaMogginn, 27. desember 2023.

VidskiptaMogginn-27-12-2023