Fréttasafn



5. des. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Óásættanlegt eftirlit með iðnaðarlögunum

Af gefnu tilefni vilja Samtök iðnaðarins vekja athygli á því að eftirfylgni opinberra aðila með iðnaðarlögunum hefur verið með öllu óásættanleg undanfarin ár. Ekkert opinbert eftirlit hefur verið til staðar í þeim tilgangi að hlúa að löggiltum iðngreinum hér á landi. Það hefur sýnt sig að engin úrræði eru til staðar til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum.

Iðnaðarlögin sem taka meðal annars til löggiltra iðngreina á sviði byggingariðnaðar, framleiðslu, matvæla- og þjónustugreina hafa ekki síst það markmið að tryggja vernd neytenda og gæði þjónustu. Enda eru lögin til þess fallin að tryggja neytendum vissu fyrir því að þeir einstaklingar sem starfa á sviði lögverndaðra iðngreina hafi öðlast tilskilda menntun og hæfni til verksins.

Þar sem virkt opinbert eftirlit er ekki til staðar hafa Samtök iðnaðarins ítrekað þurft að kæra ófaglærða aðila sem gengið hafa inn á svið löggiltra iðngreina til lögreglu en málin hafa gengið hægt og niðurstöður engar. Þá hefur ítrekað verið kvartað til Neytendastofu sem ekki hefur séð ástæðu til að taka undir þau sjónarmið sem lögunum er ætlað að gæta að og hafa ákveðið að grípa ekki til aðgerða.

Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að tryggja skilvirkt eftirlit með iðnaðarlögum og standa vörð um þá hagsmuni sem iðnaðarlögin eiga að tryggja. 

Hringbraut, 4. desember 2019.

RÚV, 5. desember 2019.