Fréttasafn



12. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Óbein áhrif hér á landi af tollastríðinu

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi að 25% tollar Bandaríkjanna á innflutt stál og ál sem tóku gildi á miðnætti hafi ekki bein áhrif hér á landi. „Vegna þess að allt ál og álafurðir hér á landi eru fluttar út til Evrópu. En þetta getur auðvitað falið í sér einhvers konar óbein áhrif ef ál sem tollarnir beinast að fer að leita á aðra markaði.“

Áhrifin fara eftir því hvort EES sé innan eða utan 

Í fréttinni segir Sigurður of snemmt að segja til um möguleg áhrif ESB-tollanna hér á landi en Evrópusambandið svaraði Trump í morgun með tollahækkun sem nær til vöruinnflutnings fyrir um 28 milljarða dollara frá Bandaríkjum. „Það fer eftir því að hverju þetta beinist nákvæmlega, mörkuðum og vörum. Það fer eftir því hvort EES sé innan eða utan.“ 

Breyting á viðskiptaháttum í heiminum sem leggst ekki vel í neinn

Þá kemur fram í fréttinni að unnið sé að greiningu í samvinnu við utanríkisráðuneytið og Sigurður segist í góðu samtali við kollega á Norðurlöndum og í Noregi sem eru í svipaðri stöðu og Íslendingar, innan EES en utan ESB og að óvissan sé mikil. „Stóru hagkerfin, Evrópusambandið og Bandaríkin leggja á tolla öllu jöfnu en nú er náttúrulega verið að tala um að stórhækka tollana og að þeir nái til fleiri markaða og fleiri vörutegunda. Það er stóra breytingin og er að breyta mjög viðskiptaháttum í heiminum þessi misserin. Það leggst auðvitað ekki vel í neinn.“ 

Bylgjan / Vísir, 12. mars 2025.