Fréttasafn



14. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Menntun

Óboðleg staða á sama tíma og þörf er á iðnmenntuðum

„Það er auðvitað óboðleg staða á sama tíma og það er mikil þörf á iðnmenntuðu fólki á vinnumarkaði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt RÚV um það sem kemur fram í nýrri greiningu SI þar sem segir að allt að þúsund nemendum hafi verið vísað frá iðnnámi á hverju ári síðustu ár og tvo milljarða vanti inn í iðnskóla svo þeir nái endum saman og til að bæta tækjakost. Í frétt RÚV kemur fram að greiningin sýni að skólar hafi sprengt utan af sér húsnæði sem þeir hafi yfir að ráða og hafi tekið við fleiri nemendum en samsvari þeim fjármunum sem þeir fái frá ríkinu. „Skólarnir hafa verið að reka sig með halla til þess að geta einfaldlega tekið við fleirum.“

Stjórnvöld þurfa að taka næstu skref

Sigurður bendir á að SI hafi farið í kynningarátak í samstarfi við stjórnvöld fyrir nokkrum árum til þess að kynna iðnnám. Það hafi skilað góðum árangri og aðsóknin stóraukist. „En nú þurfa stjórnvöld að taka næsta skref sem er að bæta aðstöðuna og leggja skólunum til meiri fjármuni þannig að þeir geti í rauninni tekið við fleiri nemendum.“

Þarf að koma Tækniskólanum undir eitt þak

Í fréttinni segir að staðan sé sú sama hjá iðnskólum nánast um allt land. „Það eru öflugir iðnskólar til dæmis á Akureyri, Neskaupstað, Sauðárkróki og fleiri stöðum fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Það þarf að byggja við þessa skóla en síðan þarf líka að koma allri starfsemi Tækniskólans, stærsta framhaldsskóla landsins undir eitt þak.“

Þingmenn allra flokka greiði götu iðnnáms á Íslandi

Sigurður segir fullan vilja hjá menntamálaráðherra til að breyta stöðunni en það verði að gerast mjög fljótlega. „Það er mjög gott að finna ríkan vilja ráðherra í þessu máli og ég trúi ekki öðru en að þingmenn úr öllum flokkum greiði götu þess að iðnnám á Íslandi verði loksins eflt.“

RÚV, 14. desember 2023.