Óboðlegt að hafa ekki fullan og greiðan aðgang að mörkuðum
„Það lítur út fyrir það, þegar verið er að fresta svona stórri ákvörðun í tvígang að það þýði að það er einhver samstaða með Íslandi og Noregi og við vitum að Norðurlöndin hafa tekið undir okkar sjónarmið,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, meðal annars í kvöldfréttum Sýnar um verndarráðstafanir Evrópusambandsins vegna kísilmálms.
Í frétt Sýnar kemur fram að Sigríður sé sjálf á leið út til Brussel til að sækja fundi þingmanna- og ráðgjafanefndar EFTA í vikunni. Hún telur verndarráðstafanirnar verða ofarlega á baugi. „Þessi tillaga er þvert gegn anda EES samstarfsins og yrði mjög slæmt fordæmi til framtíðar.“ Taki verndarráðstafanirnar gildi verði íslensk stjórnvöld að íhuga framtíð EES-samningins. „Og skoða með mjög gagnrýnum huga nýtt regluverk sem er að koma inn og horfa a það með gagnrýnum augum. Af því að það gengur ekki að bera kostnað af regluverkinu en hafa ekki aðgengi að mörkuðum.“
Sigríður segir einnig í frétt Sýnar: „Íslensk fyrirtæki búa við regluverk sem á mörgum köflum getur verið mjög íþyngjandi og hækkar þeirra framleiðslukostnað. Meðal annars kröfur í umhverfismálum, loftslagsmálum, greiða gríðarlega mikið inn á Evrópumarkað í formi kolefnisskatta og fleira. Það er algjörlega óboðlegt ef niðurstaðan verður sú í þessu máli að þau hafi ekki fullan og greiðan aðgang að mörkuðum.“
Sýn / Vísir, 17. nóvember 2025.
Mynd/Ívar Fannar

