Fréttasafn15. maí 2024 Almennar fréttir Mannvirki Meistarafélag Suðurlands

Óbreytt stjórn Meistarafélags Suðurlands

Aðalfundur Meistarafélags Suðurlands, MFS, var haldinn fyrir skömmu. Engin breyting varð á aðalstjórn félagsins að þessu sinni. Í stjórn MFS sitja, Valdimar Bjarnason, formaður, Sigurður Sigurjónsson, varaformaður, Valur Örn Gíslason, gjaldkeri, Stefán Helgason, ritari, og meðstjórnendur eru Baldur Pálsson og Hjálmar F. Valdimarsson. Stjórnarmenn koma víða að frá Suðurlandinu, Hvolsvelli, Árborg og Hveragerði. Á myndinni er Valdimar Bjarnason, formaður MFS.

Í skýrslu stjórnar kom eftirfarandi meðal annars fram:

  • Félagið er í sérstöku átaki að hitta sveitastjórnir á Suðurlandinu, bæði stjórnmálafólk og embættismenn. Þessar heimsóknir hafa mælst vel fyrir og mun félagið halda þessu áfram á nýju starfstímabili.
  • Að venju hefur samtal MFS og byggingarfulltrúa á Suðurlandinu haldið áfram. Þetta samtal hefur leitt af sér að allir aðilar sem tengjast mannvirkjagerð á Suðurlandi hafi meiri skilning á störfum hvors annars.
  • MFS stóð fyrir fjölmennum fundi í desember þar sem fulltrúar HMS komu og kynntu hvernig á að vinna í núverandi Mannvirkjaskrá og einnig var kynnt hvernig ný Mannvirkjaskrá muni virka. Til fundarins mættu byggingarstjórar, iðnmeistarar og byggingarfulltrúar. Í kjölfar þessa fundar bauð Iðan, í samvinnu við HMS, upp á námskeið í því hvernig á að vinna í Mannvirkjaskrá.
  • Reglulega var farið yfir vinnu formanns MFS hjá Meistaradeild SI (MSI) og fundagerðir þeirra funda kynntar og ræddar.
  • Rætt var um atvinnuástandið á Suðurlandi. Einnig átti MFS fund með ráðamönnum byggingarmála í Árborg og lagði áherslu á að betur væri staðið að úthlutun lóða en verið hefur.
  • Vinna við breytingu á byggingarreglugerð var mikið rædd, en nú er yfirskrift breytinganna „minnka flækjustigið sem alls ekki má leiða til hækkunar á byggingarkostnaði“.
  • Niðurstöður útboðsþings kynntar, sérstaklega þær framkvæmdir sem ráðast á í á Suðurlandinu.

Stjórnarfundir MFS eru opnir öllum félagsmönnum. Með þessu fyrirkomulagi gefst félagsmönnum gott tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og einnig veitir þetta félagsmönnum betri aðgang að stjórnarmönnum og starfsmanni SI, Friðriki Á. Ólafssyni, sem situr allar stjórnarfundi félagsins.

Að aðalfundarstörfum loknum kom Aron Bjarnason og kynnti https://veistuhvar.is/, sem er leið til að hjálpa fyrirtækjum að skrá og finna hvar verkfærin eru.