Óbreytt vaxtastig dregur úr uppbyggingu íbúða
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins að óbreytt vaxtastig muni að óbreyttu draga úr uppbyggingu íbúða á næstu mánuðum og að það sé aftur til þess fallið að þrýsta á verðhækkanir á íbúðamarkaði en peningastefnunefnd Seðlabankans greinir frá vaxtaákvörðun á miðvikudag.
Í fréttinni er vísað til umræðu um neikvæð áhrif núverandi vaxtastigs á byggingargeirann og meðal annars því sem Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri Þingvangs, sagði við Morgunblaðið í vikunni að fyrirtækið hefði frestað uppbyggingu 140 íbúða í Hjallahrauni í Hafnarfirði því að myndi ella taka verulega áhættu og tapa miklu fé ef vextir haldist óbreyttir út byggingartímann.
Eykur skort á íbúðum og þrýstir verðinu upp
Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að fyrr í sumar hafi SI birt niðurstöður könnunar sem benti til að íbúðum í byggingu myndi fjölga um 13% á næstu 12 mánuðum en hins vegar hafi könnunin þótt gefa skýr skilaboð um að háir vextir drægju úr uppbyggingu íbúða. Þannig hefðu um 56% stjórnenda verktakafyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni sagt að hár fjármögnunarkostnaður hefði dregið úr uppbyggingu íbúða af hálfu fyrirtækis þeirra undanfarna mánuði. Ingólfur segir í Morgunblaðinu að þessi neikvæðu áhrif munu auka skort á íbúðum sem þegar sé ærinn og þrýsta verðinu upp og varðand áhrif þess á verðbólgu verði að hafa í huga að húsnæðisverð hafi verið tekið úr vísitölu neysluverðs og nú sé miðað við leiguverð íbúða. Því sé samhengið milli verðhækkana á íbúðarhúsnæði og verðbólgu ekki jafn skýrt og var. „Sögulega séð hefur leiguverð verið stöðugra en húsnæðisverð. En leiguverð íbúða endurspeglar þó einnig framboðsvanda á húsnæðismarkaði,“ segir Ingólfur í fréttinni og því sé að vænta að skortur á íbúðarhúsnæði komi fram í leiguverði.
Ekki verið að mæta grunnþörf landsmanna um húsnæði
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi á síðustu árum lagt áherslu á að stuðla að meiri stöðugleika í byggingariðnaði og að miklar sveiflur hafi verið í greininni í gegnum tíðina. Ingólfur segir aðspurður ekki útlit fyrir jafnvægi á markaðnum enda verði áfram byggt talsvert undir þörf og að raunar sé nokkuð í að slíkt jafnvægi náist með hliðsjón af lóðaframboði og fjölda íbúða í byggingu og mati á íbúðaþörf næstu árin. „Þetta er mjög neikvætt. Við erum að tala um húsnæði sem er grunnþörf landsmanna. Það er ekki verið að mæta þeirri þörf. Almenningur upplifir skortinn og líka neikvæð áhrif mikillar verðhækkunar. Þessar sveiflur eru líka slæmar fyrir fyrirtækin í greininni sem eru þanin sundur og saman. Talað hefur verið um að þetta sé líkt og að reka fyrirtæki í harmonikku. Sömuleiðis er þetta óþægilegt fyrir fólk sem er að mennta sig fyrir grein þar sem atvinnuöryggi er svo háð slíkum sveiflum.“
Morgunblaðið / mbl.is, 16. ágúst 2024.