Fréttasafn



4. okt. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Óbreyttir stýrivextir rökrétt ákvörðun að mati SI

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, í stað þess að hækka þá líkt og spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir, er rökrétt ákvörðun að mati Samtaka iðnaðarins. Markar ákvörðunin vonandi endinn á því hraða vaxtahækkunarferli sem staðið hefur yfir að hálfu bankans frá því um mitt ár 2021 en á þeim tíma hefur peningastefnunefndin hækkað vexti bankans úr 0,75% í 9,25% í fjórtán skrefum. Verkefnið nú er að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum. Líklegt má telja að svigrúm verði til lækkunar stýrivaxta þegar kemur fram á veturinn og verðbólgan er farin að hjaðna frekar en nú er. Samtök iðnaðarins benda á að seðlabankar erlendis hafa í auknum mæli sent skilaboð um að vextir hafi náð hámarki og það styttist í lækkun þeirra. Mikilvægt er að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni senda slík skilaboð samhliða næstu vaxtaákvörðun.

Áhrif mikilla hækkana stýrivaxta undanfarin misseri hafa þegar komið fram auk þess sem enn frekari áhrif munu koma fram á næstu mánuðum enda tekur nokkurn tíma fyrir vaxtabreytingar að hafa áhrif. Verðbólga er að hjaðna og það er að hægja á hagvexti. Verðbólgan hefur farið úr 10,2% niður í 8%  síðan í febrúar á þessu ári. Væntingar eru um að það dragi talsvert meira úr verðbólgu á næstunni. Það dregur úr vexti hagkerfisins og sjást merki þess víða og ekki síst í iðnaðinum. Greina má merki um hægari vöxt iðnaðarins í fjölgun starfandi og veltu svo eitthvað sé nefnt.  Hærri fjármagnskostnaður gerir það að verkum að fjárfestingum er slegið á frest eða hætt við þær. Vísbendingar eru um samdrátt í fjárfestingum í hagkerfinu. Samhliða hægari hagvexti er viðbúið að það slakni á spennu á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er lágt og skortur á vinnuafli víða. Viðbúið er að atvinnuleysi komi til með að aukast á næstunni.  

Slaknað hefur á spennu á íbúðamarkaði en húsnæðisverð leggur nú mun minna til verðbólgunnar en áður. Dregið hefur úr veltu á íbúðamarkaði og farið er að gæta birgðasöfnunar á síðustu byggingarstigum. Tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 2,7% samanborið við 25% fyrir ári síðan.  Þessu til viðbótar hefur dregið verulega úr innfluttri verðbólgu en verðbólgan í helstu viðskiptalöndunum hefur verið að lækka mikið. Verðbólgan á evru-svæðinu hefur t.d. farið úr því að vera ríflega 10% í lok sl. árs niður í 4,3% nú. Í Bandaríkjunum er verðbólgan nú 3,7% eftir að hafa farið í 9% um mitt sl. ár.  

Það er rétt ákvörðun hjá peningastefnunefnd Seðlabankans að gefa háum stýrivöxtum tíma til að hafa áhrif á verðbólguna og öðrum aðilum sem koma að hagstjórninni svigrúm til að leggja sitt af mörkum.  Boltinn er nú hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins. Að mati Samtaka iðnaðarins er mikilvægt að kjarasamningar í vetur renni stoðum undir stöðugleika og verðbólgu í takti við markmið Seðlabankans. Boltinn er einnig hjá ríkisstjórninni þar sem mikilvægt er að hún beiti aðhaldi og nýti ríkisfjármálin til að styrkja framboðshlið hagkerfisins og efli framleiðni.


mbl.is, 4. október 2023.