Fréttasafn



28. okt. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Of fáar íbúðir byggðar á undanförnum 15 árum

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar er fjallað um húsnæðismál á Íslandi frá ólíkum sjónarhornum. Meðal annars er viðtal við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem svarar því hvað hægt sé að gera til að bregðast við húsnæðiskrísunni. Sigurður segir meðal annars að of fáar íbúðir hafi verið byggðar á undanförnum 15 árum, sérstaklega árin 2010- 2016. Það sé einfaldlega of lítið byggt miðað við þarfir samfélagsins. 

Þegar Sigurður er spurður hvers vegna markaðurinn hafi ekki byggt fleiri íbúðir þegar þær hækki svona umfram annað segir hann að markaðinum sé handstýrt af sveitarfélögunum í gegnum bæði skipulagsmál og framboð af byggingarsvæðum, sem haldist í hendur við skipulagsmálin. Þarna liggi helsta meinsemdin hvað varðar húsnæðis- og byggingarmarkaðinn á Íslandi. Sveitarfélögin hafi ekki verið nægilega framsýn í skipulagsmálum. „Þegar við tölum um húsnæðismálin og sjáum þessa stöðu þá eru settir á laggirnar átakshópar til að hraða uppbyggingunni. Þá er helst horft til hvernig stytta megi uppbyggingartímann. Framkvæmdatíma sem oft er að jafnaði um tvö ár. En það gleymist að áður en hægt er að hefja framkvæmdir er margra ára skipulagsferli, sem jafnvel getur verið mælt í áratugum. Þetta segir okkur að sveitarfélögin sem að fara með skipulagsvaldið í landinu þau þurfa að hugsa miklu lengra fram í tímann. Dæmi má taka frá Danmörku þar sem nýlega var sagt frá verkefni nálægt Kaupmannahöfn. Allur jarðvegur sem fellur til í höfðborginni fer í landfyllingu á svæði sem hefur verði skipulagt sem byggingarland þar sem gert er ráð fyrir 35.000 manna byggð árið 2070. Þetta er dæmi um langtímaskipulag. Hér á landi erum við að hugsa mjög skammt fram í tímann. Þetta er helsti vandi okkar. Þess vegna höfum við talað um að það sé ekki einkamál sveitarfélaganna að taka ábyrgð á því þegar landsmönnum fjölgar svo hratt sem raun ber vitni. Þannig að ríkið þarf einhvern veginn að koma þar inn. Hugsanlega með auknum heimildum til að grípa inn í skipulagsmálin. Það getur líka falist í einhverskonar hvötum fyrir sveitarfélög til uppbyggingar, svo sem með hagstæðri fjármögnun til innviðaframkvæmda. Eða með þátttöku í samgöngumálum, líkt og Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er gott dæmi um. Ég skil reyndar ekkert í því af hverju íbúðauppbygging var ekki tengd við samgöngusáttmálann. Þar var tækifæri fyrir ríkið til að hafa áhrif á skipulagsmálin. En til dæmis eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skyldug að hafa sameiginlegt skipulag, svokallað svæðisskipulag. Það var gert árin 2014-2015, þar sem vönduð vinna lá að baki. Það er að mörgu leyti framsýnt skipulag og þar eru svokölluð vaxtarmörk. Öll byggðin þarf að vera innan vaxtarmarkanna. Vandinn er bara sá að fjölgun fólks hefur verið langt umfram allar spár sem lágu til grundvallar skipulaginu.“

Visbending-vidtal-SH-1


Forsida_1729862612045

Hér er hægt að nálgast blaðið fyrir þau sem eru með áskrift.